Nú birtast upplýsingar úr tekjusögunni sem sýna að vel menntaðar konur eru á pari við minna menntaða karla í launum. Þetta er afleiðing hins skipulega vanmats á kvennastörfum sem er svo rótgróið í okkar menningu að við erum hætt að taka eftir því.
Þetta kemur fram í föstudagspistli Drífu Snædal, forseta ASÍ.
Miðað við gögn á Tekjusagan.is eru karlar með grunnmenntun með svipuð laun og háskólamenntaðar konur.
„Af hverju erum við í þessari stöðu á sama tíma og við státum okkur af árangri í jafnréttismálum á alþjóðavettvangi? Svarið við því er meðal annars að finna í umræðunum um fæðingarorlofið þar sem sum héldu því fram að við hefðum náð svo langt í jafnrétti að handaflsaðgerðir væru orðnar ónauðsynlegar,“ skrifar Drífa og bætir við að slíkt sé langt í frá, ekkert bendi til þess að jafnrétti sé að aukast.
„Þvert á móti hefur skýrasta mælingin á misrétti – launamunur kynjanna – staðið í stað síðustu ár. Við höfum enn verk að vinna að breyta menningunni til kvenfrelsis og við skulum byrja á því að meta störf kvenna með réttum hætti,“ skrifar Drífa.