Tillögur um tilslakanir væntanlegar um helgina

„Þetta er fyrst og fremst tilraun til að setja fram …
„Þetta er fyrst og fremst tilraun til að setja fram með sjónrænum hætti hvernig þetta lítur út í grófum dráttum,“ segir Svandís Svavarsdóttir um bólusetningardagatalið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gerir ráð fyrir að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skili til hennar tillögum um tilslakanir á aðgerðum innanlands um helgina. Hún væntir þess að um sé að ræða hefðbundnar tilslakanir, þ.e. rýmkun á fjöldatakmörkunum og skref í átt til afléttingar ákveðinnar starfsemi. 

Þá vonast Svandís til þess að margumtalað bólusetningardagatal líti dagsins ljós síðdegis í dag og segir hún mikilvægt að dagatalið birtist fyrir helgi. Svandís segir að dagatalið verði svipað þeim dagatölum sem Norðmenn og Danir hafa birt, þ.e. listi yfir forgangshópa þar sem aldurshópar eru brotnir meira upp en gert er í reglugerð. Í dagatalinu mun fólk geta séð í hvaða mánuði ársins það má vænta bólusetningar. 

„Við gerum ráð fyrir því að hver og einn geti horft á dagatalið og séð svolítið fyrir hvenær viðkomandi geti sirka búist við því að fá bólusetningu, þetta er auðvitað sett fram með fyrirvörum um áætlanir og allt gangi eins og það lítur núna,“ segir Svandís. 

Flókið að finna nákvæma dagsetningu

Hún tekur fram að það sé flókið að finna út nákvæmlega hvenær bólusetningu lýkur hjá hverjum hópi þar sem bóluefnin séu mismunandi. Þannig líða til að mynda þrjár vikur á milli fyrstu og annarrar sprautu af bóluefni Pfizer og Moderna en þrír mánuðir í tilfelli bóluefnis AstraZeneca. Þá þarf fólk aðeins eina sprautu af bóluefni Johnsson & Johnsson. 

„Þetta er fyrst og fremst tilraun til að setja fram með sjónrænum hætti hvernig þetta lítur út í grófum dráttum.“

Veiran gæti leynst í samfélaginu

Vetrarfrí eru fram undan og ljóst að margir ætla að ferðast á milli landshluta af því tilefni. Spurð hvort hún hafi áhyggjur af því segir Svandís:

„Ég held að við séum orðin mjög góð í því að fara varlega. Við þurfum að gera það, passa upp á grímurnar og fjarlægðina enn um sinn. Ef við gerum það held ég að við séum í lagi. En við þurfum að fara varlega og við vitum ekki hvort veiran gæti leynst einhversstaðar í samfélaginu þannig að við þurfum að fara gætilega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert