Stjórnvöld skoða nú lausnir fyrir fólk sem hefur verið atvinnulaust lengi og fer því að missa sínar atvinnuleysisbætur. Sá hópur fer sístækkandi. Félags- og barnamálaráðherra segir mikilvægt að „koma hópnum í virkni“ en útilokar ekki að bótatímabil verði framlengt í ljósi stöðunnar.
„Við erum búin að vera að skoða sérstaklega þennan hóp sem er búinn að vera atvinnulaus lengi og er að byrja í auknum mæli að falla út af bótum vegna langtímaatvinnuleysis. Við höfum líka verið í samtali við sveitarfélögin um þennan hóp vegna þess að þarna er að einhverju leyti um að ræða samspil á milli bótakerfisins og fjárhagsaðstoðarinnar,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra í samtali við mbl.is.
„Í mínum huga er virkilega mikilvægt að koma þessu fólki í virkni, koma þessu fólki af stað. Ég held að við sem samfélag eigum að taka utan um einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir í 30 mánuði og aðstoða þá við að koma sér af stað með einhverjum hætti. Ég hef ekki viljað horfa á það sem einhverja patent lausn að framlengja bótakerfið eitt og sér. Þess vegna höfum við verið að kafa aðeins dýpra ofan í þetta.“
Spurður hvernig sé hægt að koma fólki af stað segir Ásmundur að það sé til skoðunar.
„Við erum bara að vinna í því og vonumst til þess að geta kynnt eitthvað í því á næstu vikum,“ segir Ásmundur.
Er ekki útlit fyrir að þið kynnið framlengdar atvinnuleysisbætur?
„Við erum bara að skoða þetta allt saman.“