Leyfilegur hámarksfjöldi á hverjum tíma á skíðasvæðum landsins er 50% af reiknaðri móttökugetu hvers svæðis, samkvæmt reglum sem tóku gildi í dag. Enn fremur verður veitingasala opnuð en skíðafólk er hvatt til þess að taka með sér nesti.
Aukið eftirlit er með fjölda á hverju svæði og ef útlit er fyrir að fjöldi sé kominn að hámarki þá verða upplýsingar umsvifalaust birtar á upplýsingamiðlum skíðasvæðanna og aðgangur að svæðinu lokað tímabundið, segir í tilkynningu á vef landlæknis.
Hvert svæði birtir á vefsvæði upplýsingar um hámarksmóttöku og reiknað hlutfall gesta sem er leyfilegt á hverjum tíma. Börn fædd 2005 og síðar eru ekki talin með.
Nándarmörk eru tveir metrar og eru sameiginlegir snertifletir þrifnir reglulega. Grímuskylda er í skíðaskálum, á salernum, í veitingasölu, skíðaleigu og móttöku.
Nánar má sjá leiðbeiningarnar hér.