Samkvæmt bráðabirgðatölum ríkislögreglustjóra fjölgaði almennum hegningarlagabrotum lítillega milli ára eða um 2%. Umferðarbrotum fækkaði talsvert eða um 26% síðan í fyrra. Sérrefsilagabrotum fækkaði einnig talsvert eða um 17% milli ára.
Rétt tæplega 80% alla hegningarlagabrota urðu á höfuðborgarsvæðinu, 6% á Suðurnesjum, sitt hvor 5% á Suðurlandi og Norðurlandi eystra, um 1% á Vesturlandi og á Vestfjörðum og undir prósentustigi á Norðurlandi vestra, Austurlandi og Vestmannaeyjum.
Þrátt fyrir að höfuðborgarsvæðið sé langfjölmennasti landshlutinn af þeim sem hér eru taldir upp eru samt hlutfallslega flest hegningarlagabrot framin þar miðað við aðra landshluta.
Frá árinu 2018 hafa um 424 brot á ári verið framin á hverja 10 þúsund íbúa á höfuðborgarsvæðinu en hvergi annars staðar er hlutfallið yfir 300 brot á hverja 10 þúsund íbúa. Árið 2020 var hlutfallið lægst á Austurlandi þar sem 102 hegningarlagabrot voru framin á hverja 10 þúsund íbúa.
Tilfellum um heimilisofbeldi fjölgaði, en þó ekki umtalsvert. Á landinu öllu voru, samkvæmt bráðabirgðatölum, tilkynnt 1.110 heimilisofbeldismál í fyrra en þau voru 956 árið þar áður. Árið 2018 voru þau 866 og árið 2017 888 talsins.
Magn fíkniefna sem lögregla lagði hald á í fyrra vekur athygli. Lögregla lagði hald á mun minna magn örvandi vímuefna í fyrra en árið 2019 en lögregla lagði hins vegar hald á mun meira magn sljóvgandi efna og ofskynjunarlyfja í fyrra en árið 2019.
Þannig jókst stykkjatal e-taflna sem lögregla lagði hald á í fyrra um 386%, kannabisplantna um 213% í grömmum talið og marijúana um 102% í grömmum talið. Á sama tíma fækkaði grömmum kókaíns sem lögregla lagði hald á um 81%, metamfetamíns um 68% og amfetamíns um 50%.