Hæstiréttur hafnaði málskotsbeiðni Annþórs

Annþór og Börkur voru vistaðir á öryggisgangi fangelsisins eftir að …
Annþór og Börkur voru vistaðir á öryggisgangi fangelsisins eftir að hafa sætt gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglu á stórfelldri líkamsárás sem varð samfanga þeirra að bana. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur hafnað málskotsbeiðni Annþórs Kristjáns Karlssonar sem krafðist 64 milljóna króna í bætur frá íslenska ríkinu vegna vistunar hans á öryggisgangi Litla-Hrauns í 541 dag árið 2012, þegar hann og Börkur Birgisson samfangi hans voru grunaðir um að hafa orðið samfanga sínum að bana í maí sama ár.

Annþór og Börkur voru vistaðir á öryggisgangi fangelsisins eftir að hafa sætt gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglu á stórfelldri líkamsárás sem varð samfanga þeirra að bana. Þeir voru sýknaðir af ákærunni og fengu bætur vegna gæsluvarðhaldsins, símahlustunar og hlerunar á öryggisganginum.

Landsréttur taldi að ákvörðun um vistun Annþórs á öryggisganginum hefði verið tekin á grundvelli sjónarmiða um öryggi og allsherjarreglu í fangelsinu. Vernda hafi þurfti aðra fanga gegn hugsanlegri hættu sem stafa kynni af Annþóri og að annað og vægara úrræði hafi ekki verið til staðar.

Annþór taldi dóm Landsréttar rangan og niðurstaðan hefði verulega almenna þýðingu, sem Hæstiréttur féllst ekki á.

Þá taldi Annþór að vistun hans á öryggisdeild hafi ekki átt sér stoð í þágildandi lögum og í málinu reyndi á hvert svigrún ríkisvaldsins væri til að takmarka réttindi borgaranna og gera þeim að sæta íþyngjandi og þungbærum úrræðum.

Íslenska ríkið var fyrr í mánuðinum sýknað af skaðabótakröfu Barkar upp á 120 milljónir króna í héraðsdómi. Í dómnum kom fram að þáverandi forstöðumaður Litla-Hrauns hefði talið Börk vera hættulegan öðrum og að því hefði ekki verið forsvaranlegt að vista hann meðal annarra fanga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka