Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag karlmann á fimmtugsaldri í gæsluvarðhald til föstudagsins 26. febrúar í tengslum við morðið í Rauðagerði. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu og segir þar að gæsluvarðhaldsúrskurðurinn sé á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Maðurinn er þannig níundi einstaklingurinn sem úrskurðaður hefur verið í gæsluvarðhald vegna málsins.
Í tilkynningunni segir einnig að lögregla geti ekki tjáð sig frekar um málið að svo stöddu og hefur ekki náðst í Margeir Sveinsson yfirlögregluþjón síðan um hádegisbil í dag.
Í gær voru tveir menn handteknir í tengslum við málið og lá ekki fyrir þá hvort farið yrði fram á gæsluvarðhald yfir þeim. Því má leiða að því líkur að öðrum manninum hafi verið sleppt en hinn settur í gæsluvarðhald. Þetta hefur þó ekki fengist staðfest.