Félögin Þróttur og Ármann lýsa sig reiðubúin til viðræðna við borgina um að Laugardalshöll verði breytt í íþróttahús fyrir þau. Jafnframt að skólar hverfisins fái þar aðstöðu eftir þörfum, verði af byggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum í Laugardal.
Þetta kemur fram í drögum að viljayfirlýsingu milli Reykjavíkurborgar, Knattspyrnufélagsins Þróttar og Glímufélagsins Ármanns vegna aðstöðumála félaganna, sem borgarráð samþykkti á fimmtudaginn.
Eins og fram kom í frétt í Morgunblaðinu hinn 19. desember sl. voru Þróttarar mjög óhressir með þann drátt sem var orðinn á viðræðum við borgina um aðstöðumál félagsins. Finnbogi Hilmarsson, formaður Þróttar, ritaði harðorða grein um stöðuna í jólablað félagsins. Sagði hann að ekki væri farið fram á annað en að íbúar Laugardals fengju sambærilega þjónustu og veitt væri í öðrum hverfum borgarinnar
Þau svö fengust hjá borginni að viðræður myndu hefjast fyrri hluta árs 2021. Nú hafa viðræður farið fram milli borgarinnar, Þróttar og Ármanns og drög að viljayfirlýsingu liggja fyrir.