Öðrum mannanna, sem handteknir voru í gær í tengslum við morðið í Rauðagerði í síðustu viku, var sleppt nú fyrir stundu. Þetta staðfestir Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn, sem fer með rannsókn málsins.
Ekki var óskað eftir því að hann yrði úrskurðaður í gæsluvarðhald og varð því að sleppa honum, lögum samkæmt enda má lögregla annars aðeins halda mönnum í sólarhring. Hinn maðurinn sem var handtekinn í gær var hins vegar úrskurðaður í gæsluvarðhald í gær og eru nú níu í varðhaldi í tengslum við málið.
Margeir segir að yfirheyrslur og úrvinnsla gagna standi nú yfir. Hann vill þó ekkert segja til um gang þeirra né hvort játning liggi fyrir frá einhverjum.