Gerð áætlunar um viðbrögð við mögulegri vá í framhaldsskólum er lokið og hefur hún verið send til allra framhaldsskóla á landinu.
Skólameistarafélag Íslands (SMÍ) hafði frumkvæði að gerð áætlunarinnar, sem er sú fyrsta sinnar tegundar. Hún snýr meðal annars að hryðjuverkum, skotárásum, hópslysum, sprengjuhótunum, ofanflóðum, sýklum og jarðskjálftum. Áður en hún var send til skólanna fór hún til yfirlestrar hjá ríkislögreglustjóra og þaðan til mennta- og menningarmálaráðherra til undirritunar.
Lára Stefánsdóttir, skólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga, hafði veg og vanda af áætluninni og segir hún að vinnan hafi staðið yfir í þrjú ár. Henni lauk áður en árásin var gerð í Borgarholtsskóla í janúar.
Hver kafli hefur verið rýndur af sérfræðingum um vá á hversu sviði. Sem dæmi lásu fulltrúar sérsveitar ríkislögreglustjóra yfir kaflann um ofbeldi og hryðjuverk.
Lára segir þessa viðbragðsáætlun afar mikilvæga fyrir skólastjórnendur. „Við vorum í frábæru samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra um þessa vinnu,“ segir hún. Skólarnir þurfa síðan í framhaldinu að setja sér verklagsreglur.
Stýrihópur hefur jafnframt verið myndaður og mun hann fara yfir hvernig hægt verður að tileinka sér það sem kemur fram í áætluninni, til dæmis hvernig vinna með Neyðarlínunni mun fara fram. Regluleg endurskoðun verður líka gerð á áætluninni í samstarfi við ríkislögreglustjóra. „Við höfum rætt um æfingar sem við þurfum að taka og hvernig við ætlum að tileinka okkur þessi plögg. Það er heilmikil vinna,“ bætir Lára við.
Sé áætlunin skoðuð í tengslum við árásina í Borgarholtsskóla á kafli tvö í henni við þar sem fjallað er um ofbeldisatvik og hryðjuverk. Skólinn sjálfur myndi síðan útbúa eigin verklagsreglur, til dæmis hverjir komast inn í bygginguna. Annar skóli gæti þá notað slíkar reglur og þannig yrði sameiginlegt verklag til staðar. „Okkar hlutverk er að miðla því og svo er okkar að fylgjast með æfingum, til dæmis á milli lögregluembættisins og framhaldsskólanna,“ greinir hún frá.
Leiðbeiningar úr ætluninni vegna ofbeldisatviks eða hryðjuverka: