Viðbrögð við hryðjuverkum í nýrri áætlun

Lögreglumenn við Borgarholtsskóla í janúar.
Lögreglumenn við Borgarholtsskóla í janúar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gerð áætlunar um viðbrögð við mögulegri vá í framhaldsskólum er lokið og hefur hún verið send til allra framhaldsskóla á landinu.

Skólameistarafélag Íslands (SMÍ) hafði frumkvæði að gerð áætlunarinnar, sem er sú fyrsta sinnar tegundar. Hún snýr meðal annars að hryðjuverkum, skotárásum, hópslysum, sprengjuhótunum, ofanflóðum, sýklum og jarðskjálftum. Áður en hún var send til skólanna fór hún til yfirlestrar hjá ríkislögreglustjóra og þaðan til mennta- og menningarmálaráðherra til undirritunar.

Þriggja ára vinna að baki

Lára Stefánsdóttir, skólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga, hafði veg og vanda af áætluninni og segir hún að vinnan hafi staðið yfir í þrjú ár. Henni lauk áður en árásin var gerð í Borgarholtsskóla í janúar.

Hver kafli hefur verið rýndur af sérfræðingum um vá á hversu sviði. Sem dæmi lásu fulltrúar sérsveitar ríkislögreglustjóra yfir kaflann um ofbeldi og hryðjuverk.

Lára segir þessa viðbragðsáætlun afar mikilvæga fyrir skólastjórnendur. „Við vorum í frábæru samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra um þessa vinnu,“ segir hún. Skólarnir þurfa síðan í framhaldinu að setja sér verklagsreglur.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikil vinna að tileinka sér áætlunina

Stýrihópur hefur jafnframt verið myndaður og mun hann fara yfir hvernig hægt verður að tileinka sér það sem kemur fram í áætluninni, til dæmis hvernig vinna með Neyðarlínunni mun fara fram. Regluleg endurskoðun verður líka gerð á áætluninni í samstarfi við ríkislögreglustjóra. „Við höfum rætt um æfingar sem við þurfum að taka og hvernig við ætlum að tileinka okkur þessi plögg. Það er heilmikil vinna,“ bætir Lára við.

Sé áætlunin skoðuð í tengslum við árásina í Borgarholtsskóla á kafli tvö í henni við þar sem fjallað er um ofbeldisatvik og hryðjuverk. Skólinn sjálfur myndi síðan útbúa eigin verklagsreglur, til dæmis hverjir komast inn í bygginguna. Annar skóli gæti þá notað slíkar reglur og þannig yrði sameiginlegt verklag til staðar. „Okkar hlutverk er að miðla því og svo er okkar að fylgjast með æfingum, til dæmis á milli lögregluembættisins og framhaldsskólanna,“ greinir hún frá.

Leiðbeiningar úr ætluninni vegna ofbeldisatviks eða hryðjuverka: 

  1. Flýðu
  • Þegar þið komið inn í rými, glöggvið ykkur á neyðarútgöngum
  • Forðist árásarstað, finnið öruggt skjól fjarri honum
  • Ekki kasta neinu frá þér eða fara til baka til að sækja eitthvað sem gæti vakið athygli á þér, fyrr en heimild er fengin frá þeim sem stjórna á vettvangi
  • Gætið þess að fara ekki í sjónlínu árásarmanns eða manna
  • Ef enginn starfsmaður er nærri verða nemendur sjálfir að ákveða hvar sé öruggast að fela sig eða hvaða leið er öruggasta flóttaleið
  • Hjálpið öðrum eftir því sem mögulegt er að komast í öruggt skjól
  • Varið aðra við sem hyggjast fara inn á hættusvæðið ef það er mögulegt
  1. Feldu þig
  • Þessar leiðbeiningar eiga einungis við ef ekki er hægt að komast í burtu frá hættu
  • Lokaðu þig inni eins fjarri árásarmanni og mögulegt er, læstu hurð og settu eitthvað þungt fyrir dyrnar
  • Ef enginn starfsmaður er til staðar verða nemendur sjálfir að ákveða hvar sé öruggast að fela sig
  • Slökktu á tölvum og ljósum og gættu þess að hátalarar séu ekki í gangi
  • Haltu þig fjarri gluggum og leggstu í gólfið
  • Ef þú kemst ekki í lokað rými, feldu þig bak við eins sterkan flöt og mögulegt er, til dæmis steinvegg
  • Slökktu á hringingu og titringi í farsímanum og gættu þess að ljós sjáist ekki frá honum
  • Reyndu að róa og hughreysta samnemendur
  • Hafa hljótt og láta lítið fyrir sér fara
  1. Láttu vita
  • Hringið í 112 þegar þið eruð komin í öruggt skjól
  • Hlýðið öllum fyrirmælum lögreglu og yfirvalda
  • Ekki hlaupa að lögreglumönnum þegar þeir koma eða sýna þeim ógnvekjandi tilburði
  • Haldið höndum uppi og lófa opnum þegar þið gangið að lögreglu
  • Veitið lögreglu og starfsfólki skólans allar upplýsingar
  • Aðstoðið starfsfólk og lögreglu við að fá yfirsýn og hvar aðrir eru niðurkomnir.
  • Upplýsið næsta starfsmann skólans ef um er að ræða árás eða ofbeldishegðun
  • Ekki miðla sögusögnum, óstaðfestum fregnum eða myndefni á samfélagsmiðlum eða annars staðar á netinu

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert