Af 706 farþegum sem komu til landsins um helgina voru 58 þeirra ekki með neikvætt PCR-próf vegna Covid-19 eða gild vottorð vegna smits eða bólusetningar. 543 farþegar voru með gild próf, 51 með vottorð fyrir sýkingu og 54 með vottorð vegna bólusetningar.
Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns á upplýsingafundi almannavarna.
Nýjar reglur á landamærunum tóku gildi á miðnætti á föstudagskvöld. Annars vegar er gerð krafa um að fólk framvísi neikvæðu PCR-prófi á brottfararstað og hins vegar hefur framkvæmd ýmissa atriða verið bætt.
Má þar nefna víðtækari heimildir til að fólki sé gert að fara í farsóttarhús, svo sem ef viðkomandi er smitaður af bráðsmitandi afbrigði eða getur ekki gefið upp nægjanlega góðar upplýsingar um búsetu í sóttkví.
Víðir sagði að tilmæli varðandi sektir vegna þeirra sem ekki koma með neikvætt PCR-próf séu enn í vinnslu hjá ríkissaksóknara. Hann sagði að tilmæli myndu líklega taka gildi um miðja viku.