Klukkan 09:00 í dag að norskum tíma hófst málflutningur fyrir Lögmannsrétti Hálogalands í Tromsø í áfrýjunarmáli Gunnars Jóhanns Gunnarssonar, sem í október hlaut 13 ára fangelsisdóm fyrir að ráða hálfbróður sínum, Gísla Þór Þórarinssyni, bana með haglaskoti að morgni 27. apríl 2019.
Sem fyrr sækir Torstein Lindquister héraðssaksóknari málið fyrir hönd héraðssaksóknaraembættisins í Troms og Finnmark, en til varnar er sem fyrr Bjørn Gulstad, nú ásamt öðrum verjanda og eiganda frá sömu lögmannsstofu, Brynjari Meling, sem hvað þekktastur er fyrir að annast málsvörn Najmuddin Faraj Ahmad, öðru nafni mulla Krekar, eins af leiðtogum kúrdísku hryðjuverkasamtakanna Ansar al-Islam, í máli sem gekk meira og minna í 17 ár í Noregi, þar til Krekar var að lokum framseldur til Ítalíu í fyrra.
Munu verjendur nú reyna til þrautar að sýna fram á, að ásetningur Gunnars Jóhanns hafi ekki staðið til þess að ráða hálfbróður sínum bana heldur hafi skot hlaupið af haglabyssu, sem Gunnar hafði meðferðis, í læri Gísla Þórs þegar þeir tókust á um vopnið.
„Umbjóðandi minn hlakkar til að skýringar hans og sönnunargögn málsins verði nú borin undir æðra dómstig til samþykktar eða synjunar og hann hefur fundið fyrir sterkum stuðningi utanaðkomandi fólks í máli sínu,“ sagði Bjørn Gulstad verjandi í samtali við mbl.is eftir að dómur gekk í málinu í Héraðsdómi Vadsø í haust, en þeir Gunnar Jóhann áfrýjuðu málinu þegar til lögmannsréttar.
Gert er ráð fyrir að meðferð málsins standi fram til 1. mars.