Áfrýjunarmál Gunnars Jóhanns hefst í dag

Bjørn Andre Gulstad verjandi og Gunnar Jóhann Gunnarsson í fangelsinu …
Bjørn Andre Gulstad verjandi og Gunnar Jóhann Gunnarsson í fangelsinu í Vadsø í Finnmörk þar sem Gunnar ræddi við mbl.is meðan á réttarhöldunum stóð fyrir héraðsdómi í september. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Klukkan 09:00 í dag að norskum tíma hófst málflutningur fyrir Lögmannsrétti Hálogalands í Tromsø í áfrýjunarmáli Gunnars Jóhanns Gunnarssonar, sem í október hlaut 13 ára fangelsisdóm fyrir að ráða hálfbróður sínum, Gísla Þór Þórarinssyni, bana með haglaskoti að morgni 27. apríl 2019.

Sem fyrr sækir Torstein Lindquister héraðssaksóknari málið fyrir hönd héraðssaksóknaraembættisins í Troms og Finnmark, en til varnar er sem fyrr Bjørn Gulstad, nú ásamt öðrum verjanda og eiganda frá sömu lögmannsstofu, Brynjari Meling, sem hvað þekkt­ast­ur er fyr­ir að ann­ast málsvörn Najmudd­in Faraj Ahmad, öðru nafni mulla Krek­ar, eins af leiðtog­um kúr­dísku hryðju­verka­sam­tak­anna Ans­ar al-Islam, í máli sem gekk meira og minna í 17 ár í Nor­egi, þar til Krekar var að lokum framseldur til Ítalíu í fyrra.

Standa við manndráp af gáleysi

Munu verjendur nú reyna til þrautar að sýna fram á, að ásetningur Gunnars Jóhanns hafi ekki staðið til þess að ráða hálfbróður sínum bana heldur hafi skot hlaupið af haglabyssu, sem Gunnar hafði meðferðis, í læri Gísla Þórs þegar þeir tókust á um vopnið.

„Um­bjóðandi minn hlakk­ar til að skýr­ing­ar hans og sönn­un­ar­gögn máls­ins verði nú bor­in und­ir æðra dóm­stig til samþykkt­ar eða synj­un­ar og hann hef­ur fundið fyr­ir sterk­um stuðningi ut­anaðkom­andi fólks í máli sínu,“ sagði Bjørn Gulstad verjandi í samtali við mbl.is eftir að dómur gekk í málinu í Héraðsdómi Vadsø í haust, en þeir Gunnar Jóhann áfrýjuðu málinu þegar til lögmannsréttar.

Gert er ráð fyrir að meðferð málsins standi fram til 1. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert