Einangrun hunda og katta við komuna til landsins verður stytt úr fjórum vikum í fjórtán daga, eins og tilkynnt var af hálfu atvinnuvegaráðuneytisins í fyrra. Óskir hagsmunaaðila um að stytta einangrunina enn meira verða ekki virtar að sinni, samkvæmt ráðuneytinu.
Einangrunartími upp á fjórar vikur hefur löngum þótt mjög langur, eins og sjá má á umsögnum sem bárust um reglugerðardrög inni í samráðsgátt stjórnvalda.
Félag ábyrgra hundaeigenda ritar í sinni umsögn að jafnvel þó að tíminn sé styttur í 14 daga sé það enn lengsti einangrunartími dýra í heimi. Félagið vill að gengið sé lengra og tíminn styttur í 10 daga. Aðrir lögðu til að einangrunarskylda væri alfarið afnumin og gæludýrapassi tekinn upp í staðinn.
Í niðurstöðuskjali frá ráðuneytinu segir að ekki sé unnt að verða við beiðni um tíu daga einangrun að þessu sinni: „14 daga einangrun er talin ásættanleg en eingöngu vegna hertra heilbrigðisskilyrða fyrir innflutning. Frekari stytting á einangrun myndi þýða aukna áhættu á að smit bærist til landsins.“
Samráði vegna reglugerðardraganna er lokið í bili.
Auk styttri einangrunartíma eru breytingar gerðar á ákvæðum um viðurkennd útflutningslönd og þeim löndum verið fækkað þar sem gengið er út frá því að hætta sé á hundaæði.
Þá er nú gert ráð fyrir að innflytjendur vottaðra hjálparhunda geti sótt um leyfi til að einangrun hundanna fari fram á heimili undir eftirliti Matvælastofnunar. Eingöngu hjálparhundar sem uppfylla öll skilyrði geti fengið slíka heimild.