„Gríðarleg vonbrigði fyrir alla aðila“

Enn er að finnast mygla í Fossvogsskóla. Helgi Grímsson, sviðsstjóri …
Enn er að finnast mygla í Fossvogsskóla. Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, segir aðeins finnast myglugró og það fari minnkandi með hverju sýni sem tekið er. Haraldur Jónasson/Hari

„Auðvitað eru þetta gríðarleg vonbrigði fyrir alla aðila að það sé ekki búið að uppræta þetta enn þá. Sannarlega vonum við að nú séum við komin á betri stað núna. Því í sjálfu sér sjáum við þetta í færri og færri sýnum og magnið er alltaf minna. Við vitum að við erum á réttri leið,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs hjá Reykjavíkurborg, um niðurstöður grein­ing­ar Nátt­úru­fræðistofn­un­ar Íslands á sýn­um sem tek­in voru í Fossvogskóla og sýndu að enn finnst mygla í skólanum þrátt fyrir miklar endurbætur á húsnæði skólans.

Sýnin sem leiddu þetta í ljós voru tekin í skól­an­um 16. des­em­ber 2020. Helgi segist skilja óánægju foreldra við skólann og magn myglugróa í skólanum sé óviðunandi.

Ekki mygluvöxtur heldur myglugró

Niðurstöður mælinga sýna að á nokkrum stöðum er of mikið af myglugróum. Við athugun frá verkfræðistofu kemur í ljós að það er óviðunandi frágangur á rakasperru í þaki hússins. Það er talin ástæðan fyrir að þessi gró er að finnast. Efni sem hefur borist bæði að utan og sem er í gömlu efni sem þarna er verið að loka rakasperrunni, þrífa þetta og lagfæra,“ segir Helgi. 

Þá segir Helgi næstu skref vera að ganga frá rakasperrunni og þrífa skólann aftur. Hann segir vongóður um að það dugi til.

„Það er búið að senda ótal sýni í ræktun, það er búið að taka kjarnasýni í steypu, í veggjum og gólfi. Reyna að finna þar sem mygla hefur greinst í efni, og fjarlægja allt efni sem að mygla hefur greinst í eða skipta um,“ segir Helgi. 

Helgi segir mikilvægt að líta til þess að ekki hafi fundist mygluvöxtur í húsinu heldur einungis myglugró. Til útskýringar segir hann muninn vera sá sama og á fræi og blómi. Þó hafi gró í nægilegu magni áhrif á þau sem þróað hafa með sér ofnæmi fyrir myglunni.

„Fyrir þau sem finna þessi einkenni þá er það auðvitað ekki nóg. Maður skilur foreldra sem eru ekki ánægðir. Það er bara fullur skilningu á því.“

Vill aukafund í skóla- og frístundaráði

Marta Guðjónsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði, hefur óskað eftir aukafundi í ráðinu til að ræða skýrsluna um Fossvogsskóla. Hvorki hafi foreldrum verið kynnt skýrslan um mygluna né hafi kjörnir fulltrúar í ráðinu verið upplýstir um hana.

„Þetta mál er mjög alvarlegt og nauðsynlegt að ráðið komi saman til fundar sem fyrst til að ræða þessa skýrslu. Skóla- og frístundaráð ber ábyrgð á skólamálum í borginni og það hefði auðvitað átt að ræða málið strax og þessi skýrsla lá fyrir. Þetta er mál sem þolir enga bið og við verðum að koma saman og leita lausna,“ sagði Marta við mbl.is.

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert