Úrskurðarnefnd um upplýsingamál gaf nýlega út að hún mæti þá ákvörðun mennta- og menningarmálaráðuneytisins lögmæta, að synja blaðamanni um aðgang að greinargerð starfshóps um varðveislu fleiri handrita á Íslandi.
Starfshópnum hafði verið falið að gera tillögur að því hvernig staðið gæti verið að viðræðum Íslendinga við Dani um möguleika á að fleiri skinnhandrit yrðu varðveitt á Íslandi en nú er.
Tillögurnar sem starfshópurinn setti saman voru kynntar ríkisstjórn á fundi hennar 25. september 2020. Skömmu síðar fór blaðamaðurinn, sem ekki er nefndur á nafn í úrskurðinum, þess á leit við ráðuneytið að fá aðgang að tillögunum.
Ráðuneytið hafnaði ósk hans á grundvelli þess að hætta væri á að samningaviðræður biðu tjón ef almenningur fengi aðgang að greinargerðinni áður en dönsk stjórnvöld fengju tækifæri til að kynna sér efni hennar.
Blaðamaðurinn benti á móti á að það lægi skýrt fyrir að viðræðurnar snerust um að Danir afhendi þau fornrit sem enn eru varðveitt í Kaupmannahöfn. Birting greinargerðarinnar geti varla skaðað samningaviðræður þegar vilji ráðherra liggur ljós fyrir.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra lýsti því í viðtali við Morgunblaðið árið 2019 að hún teldi að áhugi Dana á íslenskum fornritum færi dvínandi. Því væri eðlilegra að fleiri væru geymd hér á landi en nú eru.
„Við erum einnig betur í stakk búin til þess að hýsa þessi verk nú þegar hillir undir að Hús íslenskunnar verði reist hér í Reykjavík en þar verða meðal annars sérhönnuð rými fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningar á handritum,“ sagði Lilja.