Ríkið braut á rétti Magnúsar

Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, hefur lagt íslenska …
Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, hefur lagt íslenska ríkið að velli einu sinni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og nú skrifað undir sátt í öðru máli. mbl.is/Árni Sæberg

Máli Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, gegn íslenska ríkinu vegna vanhæfis dómara í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings hefur verið lokið með sátt. Íslenska ríkið viðurkennir að brotið hafi verið á rétti Magnúsar til réttlátrar málsmeðferðar.

Auk viðurkenningarinnar felst það í sáttinni að ríkið greiði Magnúsi tólf þúsund evrur, sem samsvarar tæpum tveimur milljónum króna og viðurkenning á að Magnús geti óskað eftir endurupptöku málsins. Þetta staðfestir Kristín Edwald, verjandi Magnúsar í samtali við mbl.is en RÚV greindi fyrst frá.

Mannréttindadómstóllinn hafði áður komist að því að brotið hafi verið á rétti Magnúsar í Al Thani-málinu vegna vanhæfis dómara. Eftir að dómstóllinn samþykkti að taka kæru Magnúsar vegna markaðsmisnotkunarmálsins fyrir var honum og íslenska ríkinu ráðlagt að ljúka málinu með sátt.

Kristín segir skjólstæðing sinn vera ánægðan með niðurstöðuna. „Stóra atriðið er að það hafi verið viðurkennt að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans um réttinn til réttlátrar málsmeðferðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert