Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt mat Símon Sigvaldason héraðsdómari hæfastan til að hljóta embættið. Jón Finnbjörnsson, dómari við réttinn og einn fjögurra dómara sem landsréttarmálið svokallaða snerist um, var meðal umsækjenda en var ekki metinn hæfastur. Hann hefur verið í launuðu leyfi frá því dómur Mannréttindadómstóls Evrópu gekk árið 2019.
Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari sótti einnig um embættið sem var auglýst laust til umsóknar 20. nóvember 2020. Dómsmálaráðuneytið hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að allir umsækjendur uppfylltu almenn hæfisskilyrði.
Þegar Landsréttur var stofnaður lagði hæfnisnefnd mat á hæfni umsækjenda en þáverandi dómsmálaráðherra gerði breytingar á lista nefndarinnar áður en listi yfir dómaraefni var lagður fyrir Alþingi til staðfestingar. Jón hafði ekki verið meðal efstu á lista hæfnisnefndar.
Eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp dóm þar sem niðurstaðan var sú að ekki hefði verið rétt staðið að breytingunum og fjórir dómarar hefðu ekki verið skipaðir lögum samkvæmt óskaði Jón og hinir dómararnir þrír eftir launuðu leyfi. Síðan þá hafa hafa hinir þrír verið aftur skipaðir dómarar við Landsrétt en þetta var í fyrsta skipti sem Jón sótti um.