Skoða heimildir til brottvísunar úr skóla

Lögreglan á vettvangi í Borgarholtsskóla í síðasta mánuði.
Lögreglan á vettvangi í Borgarholtsskóla í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skólameistarafélag Íslands athugar í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið hvort hægt verði að víkja nemendum tímabundið úr skóla þegar kemur að alvarlegum brotum á borð við þau sem áttu sér stað í Borgarholtsskóla í síðasta mánuði.

Þetta segir Kristinn Þorsteinsson, formaður Skólameistarafélags Íslands og skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ. 

Hann segir nálgunina flókna því gæta þurfi að réttindum nemenda og skóla. „Réttur nemenda til að vera í námi er eðlilega mjög ríkur en í einhverjum tilfellum getum við þurft að tryggja öryggi annarra nemenda. Þetta eru flóknar spurningar sem þarf að takast á við og það eru samræður í gangi um hvort það þurfi að endurskoða reglur um það,“ greinir Kristinn frá.

Skoða þarf hvort heimildirnar sem nú eru til staðar séu nægilega rúmar til brottvísana og hvort skólum sé yfirleitt heimilt að víkja nemendum tímabundið úr skóla. „Þeir [nemendur] hafa andmælarétt samkvæmt stjórnsýslureglum en spurningin er, hvernig bregstu við ef hættan er brýn?“ segir hann. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Ber að fara að stjórnsýslureglum

Spurður hvort hver framhaldsskóli fari ekki eftir eigin reglum svarar hann að hver skóli sé með skólareglur. „Það breytir því ekki að við erum stjórnsýslustofnun á vegum ríkisins og okkur ber að fara að stjórnsýslureglum. Í því felst að veita mönnum andmælarétt og annað slíkt,“ segir Kristinn og bendir á að ákvarðanirnar sem eru teknar innan skólans séu stjórnvaldsákvarðanir og ákveðin lög gildi um þær. Áður fyrr hafi nemendum verið vikið úr skóla án mikilla eftirmála en slíkt virki ekki lengur.

Hann segir mjög eðlilegt að skoða þessi mál í ljósi árásarinnar í Borgarholtsskóla. Skoða þurfi hvort viðbrögðin hafi verið rétt og hvað hægt sé að læra af því sem gerðist.

Hann fagnar jafnframt nýrri viðbragðsáætlun fyrir framhaldsskóla sem nýverið var samþykkt af mennta- og menningarmálaráðherra og telur að hún komi á góðum tímapunkti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert