Góður gangur er á framkvæmdunum við byggingu Nýs Landspítala og er vinna á vegum Eyktar hf., sem sér um uppsteypu meðferðarkjarna spítalans, sögð vera komin á fulla ferð á verksvæðinu við Hringbraut.
Unnið hefur verið að undirstöðum fyrir uppsteypuna og eru 50 til 100 starfsmenn við framkvæmdirnar, sem ganga vel að sögn Gunnars Svavarssonar, framkvæmdastjóra NLSH ofh.
Ýmis stór útboðsverkefni upp á um ellefu milljarða króna eru áætluð á árinu. Segir Gunnar að það stærsta sé samkeppnisútboð á útveggjum meðferðarkjarnans og jarðvinna vegna rannsóknahússins sé á leið í loftið. Fífilsgata, sem áður hét Vatnsmýrarvegur, verður boðin út á vormánuðum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.