Um 850 voru bólusettir á Suðurlandsbraut 34 í dag með mjög góðum árangri, að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunra hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.
Ragnheiði telst til á milli 80-90% aldurshópsins, þ.e. eldri en 90 ára, séu nú bólusett. 750 komu í sína aðra sprautu í dag og teljast þar með ónæm að viku liðinni, alltént að svo miklu leyti sem fullyrt má vera að ónæmi sé náð.
100 manns voru að koma í fyrstu bólusetninguna og fá því seinni sprautuna eftir þrjár vikur. Bólusett var með efni Pfizer.
„Þetta er hópurinn sem hefur beðið hvað lengst eftir að losna úr þessari einangrun. Fólkið finnur því fyrir mikilli gleði að geta loksins farið að hitta ættingja og vini,“ segir Ragnheiður í samtali við mbl.is.
Haldið verður áfram við bólusetningar á starfsfólki hjúkrunarheimila, með bóluefni AstraZeneca, í þessari viku og næstu. Þá bætast einnig við almennir heilbrigðisstarfsmenn.