Karlmaður á þrítugsaldri var í gær dæmdur í 4 mánaða fangelsi fyrir ofbeldi í nánu sambandi en honum var gefið að sök heimilisofbeldisbrot á hóteli í Marseille í Frakklandi.
Í ákæru kemur fram að maðurinn hafi veist með ofbeldi að konunni fyrir utan hótelherbergi í Frakklandi, tekið hana hálstaki, kýlt hana ítrekað í andlit og höfuð og sparkað og kýlt hana víðs vegar um líkamann eftir að hún féll í gólfið. Hlaut konan ýmsa áverka, meðal annars marbletti í kringum bæði augu, eymsli ofarlega í brjósthrygg og mar frá úlnlið og upp á miðjan vinstri upphandlegg.
Manninum var einnig gert að greiða konunni 1.200.000 krónur ásamt vöxtum í skaðabætur en konan var skilinn eftir peningalaus og símalaus í Frakklandi og varð að gista eina nótt undir berum himni.
Maðurinn á að baki sér sakaferil frá árinu 2011. Hann hefur sjö sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og vopnalögum.
Brotið sem dæmt var fyrir í gær var framið fyrir uppsögu þriggja refsidóma og refsing því ákveðin með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga. Í febrúar 2019 var maðurinn dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir heimilisofbeldisbrot, í júní sama ár var hann síðan dæmdur í sex ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps og loks var hann dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í mars 2020.