Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir í samtali við mbl.is að hún hafi átt samtöl við lögregluna til þess að fá „betri og skýrari mynd“ á þær kvartanir sem hafa komið fram vegna eftirlits hennar. Þá segir Áslaug að Íslendingar verðskuldi þær tilslakanir sem tilkynntar voru á sóttvarnareglum í dag.
Áslaug telur slæmt þegar reglugerðir stjórnvalda eru ekki nægilega skýrar en hún bindur vonir við það að sú reglugerð um sóttvarnir sem var birt í dag sé skýrari en fyrri reglugerð.
Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði sendu áskorun á stjórnvöld í morgun þar sem þau óska eftir því að „látið verði af stöðugum lögregluaðgerðum með tilheyrandi fréttaflutningi sem grefur undan greininni í heild sinni“.
Spurð hvort hún hafi kallað eftir því sérstaklega að lögregla dragi úr eftirliti með veitingastöðum segir Áslaug:
„Það þarf alltaf að gæta að meðalhófi og staðan er auðvitað sú núna að það eru mjög fá smit í landinu.“
„Það er slæmt þegar lögreglan skýrir reglur mismunandi eftir landshlutum og annað. Ég hef óskað eftir því að það sé skoðað,“ segir Áslaug. Hún hefur kallað eftir meira samræmi í aðgerðum lögreglu á landsvísu hvað varðar Covid-19.
„Það er slæmt ef takmarkanir og reglugerðir frá stjórnvöldum eru ekki nægilega skýrar svo allir skilji þær á sama hátt. Ég hef kallað eftir því og ég bind vonir við að enginn verði í vafa hvaða reglur gilda með nýrri reglugerð. En það er alltaf mikilvægt þegar verið er að setja takmarkanir á starfsemi að það liggi skýrt fyrir hverjar þær séu.“
Í dag voru tilkynntar tilslakanir á sóttvarnareglum vegna Covid-19. Nú mega 50 manns koma saman og 200 í vissum tilvikum.
„Íslendingar eiga tilslakanir mjög vel skilið eftir það sem á undan er gengið. Við getum verið mjög bjartsýn. Vonandi eru þetta bara fyrstu skrefin í komandi tilslökunum til að nálgast eðlilegt líf,“ segir Áslaug.
Spurð hvort eðlilegt hefði verið að slaka meira á, í ljósi þess að tíu smit hafa greinst það sem af er febrúarmánuði og einungis tvö smit síðastliðna viku, segir Áslaug:
„Þetta er fyrsta skrefið. Ég vona að það verði síðan fleiri skref því við eigum ekki að venjast um of takmörkunum á líf okkar þegar allt gengur eins vel og það gengur núna.“
Fréttin hefur verið uppfærð