Læknirinn á Suðurnesjum, sem lögregla og embætti landlæknis rannsaka vegna gruns um vanrækslu og raðar alvarlegra mistaka sem leiddu til andláts, er ekki með gilt starfsleyfi.
Starfsleyfi lækna eru uppfærð daglega á vef Landlæknis og umræddur læknir er þar hvergi sjáanlegur. Greint var frá málinu á Vísi.
Hann vann á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja frá 2018 til 2020 en embætti landlæknis hóf að skoða störf hans í nóvember 2019 eftir að athugasemdir bárust í kjölfar andláts konu á áttræðisaldri. Konan var ekki lífshættulega veik en hafði verið sett í líknandi meðferð.
Í áliti landlæknis kom fram að maðurinn hefði gert mörg og alvarleg mistök á ýmsum sviðum, hvort sem var í greiningum, hjúkrun eða lífslokameðferð.
Í yfirlýsingu HSS vegna málsins frá í gær kemur fram að stofnunin muni gera allt sem í hennar valdi stendur til að koma í veg fyrir að atburðir eins og þessir endurtaki sig.
„Eftir að málið kom upp var strax settur enn meiri kraftur í að bæta verkferla sem snúa að utanumhaldi og eftirfylgni með skjólstæðingum heilbrigðisstofnunarinnar,“ segir í tilkynningunni.
Læknirinn sem bar ábyrgð á meðferðinni var settur í leyfi og lét í kjölfarið af störfum við stofnunina. Jafnframt vísaði HSS umræddu máli til lögreglu.