Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur(HER) telur talsverðar líkur á því að fyrirhuguð stækkun og landfylling í Sundahöfn valdi neikvæðum áhrifum á samfélagið, bæði hvað varðar sjónræna þætti og vegna hávaðamengunar.
Þetta kemur fram í umsögn heilbrigðiseftirlitsins til Skipulagsstofnunar vegna matsáætlunar fyrir þróun Sundahafnar. Jafnframt bendir eftirlitið á að skoða þurfi ítarlega möguleg áhrif á lífríkið, segir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Eins bendir HER á þann valkost að kanna aðra staðsetningu fyrir vöruhöfn í nágrenni borgarinnar, þar sem minni líkur eru á ónæði. Þessu hafna fulltrúar meirihlutaflokkanna í umhverfis- og heilbrigðisráði Reykjavíkur.
HER bendir á í umsögn sinni að við tilfærslu hafnarbakka breytist sú skermun sem núverandi aðstæður veiti nærliggjandi íbúðabyggð. Þegar fyllt verði upp í núverandi hafnarstæði færist meginstarfsemin utar, sem opni fyrir að hljóð berist frekar í nærliggjandi hverfi.