Ráðherra ræddi við lögreglustjóra um Ásmundarsalsmálið

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu ræddu saman í tvígang á aðfangadag, daginn eftir að lögregla stöðvaði samkvæmi í Ásmundarsal þar sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var á meðal gesta.

Samkvæmt frétt RÚV um málið er haft eftir Áslaugu Örnu að hún hafi ekki verið að skipta sér af rannsókn málsins. Heldur hafi hún verið að spyrjast fyrir um verklagsreglur um upplýsingagjöf til fjölmiðla.

Bæði Áslaug og Halla staðfestu að hafa rætt saman á aðfangadag vegna málsins.

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Áslaug Arna segir í svari við fyrirspurn RÚV að sér hafi á aðfangadag borist spurningar, meðal annars frá fjölmiðlum, og hún hafi því hringt í lögreglustjórann til að spyrja um verklagsreglur um dagbókarfærslur lögreglunnar og persónuverndarsjónarmið. Hún hafi ekki gert athugasemdir við framkvæmd lögreglunnar í málinu. 

Eins og frægt er orðið kom fram í dagbókarfærslu lögreglu að „einn hæstvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands“ hafi verið viðstaddur þegar lögreglu bar að garði.

Sagt er að 40-50 manns hafi verið verið saman komnir en málið er enn til meðferðar hjá lögreglu. Þá kemur fram í svari Huldu Elsu Björgvinsdóttur, sviðsstjóra ákærusviðs að upplýsingagjöf til fjölmiðla sé nú til endurskoðunar hjá embættinu vegna málsins. Er það þó niðurstaða hafi verið sú að ekki hafi orðið öryggisbrestur vegna málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert