„Þetta er jákvætt því að nú erum við í fyrsta sinn með lagaákvæði sem tekur á þessari háttsemi sérstaklega, það er að segja að dreifa og birta kynferðislegt efni án samþykkis viðkomandi.“
Þetta segir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari um frumvarp um kynferðislega friðhelgi, sem samþykkt var á Alþingi í síðustu viku, en tilefni lagasetningarinnar er aukið stafrænt kynferðisofbeldi á Íslandi. Engin einhlít skilgreining lá fyrir um hugtakið en með því er vísað til háttsemi sem felst í því að nýta stafræn samskipti til þess að búa til, dreifa eða birta kynferðislegt myndefni af öðrum í heimildarleysi.
„Þetta eru því skýr skilaboð sem löggjafinn er að senda núna, með því að setja sérstakt ákvæði sem kveður á um refsinæmi þessarar háttsemi,“ segir Kolbrún.
Þörf hafi verið á þessari breytingu í lögunum.
„Hingað til höfum við haft ákveðin verkfæri til að nýta og höfum ákært í málum af þessum toga, en þau refsiákvæði sem við nýttum voru alls ekki sett með þessa háttsemi beint í huga,“ segir Kolbrún í samtali við mbl.is, og bendir til dæmis á ákvæði í hegningarlögum sem varðar svokölluð blygðunarsemisbrot.
„Það ákvæði hefur verið notað um svo ofboðslega margt. Til dæmis til að ná yfir þá háttsemi þegar menn flettu sig klæðum á almannafæri en nútímabirtingarmyndin af því eru óumbeðnar typpamyndir.
Svo höfum við líka verið að nota þetta þegar fólk er að birta kynferðislegar myndir af öðru fólki í óþökk þeirra. En í grunninn er þetta ákvæði ekki hugsað fyrir svona háttsemi, enda hátt í áttatíu ára gamalt. Það hefur reynst þó ágætlega, en nær ekki alveg kjarnanum á því sem verið er að vernda,“ segir Kolbrún.
„Þess vegna eru þetta mun sterkari skilaboð sem verið er að senda með þessu ákvæði: Þú átt rétt á því að þín kynferðislega friðhelgi sé vernduð. Það má enginn birta kynferðislegar myndir af þér án þíns samþykkis. En með gamla ákvæðinu þá er talað um að „særa blygðunarsemi fólks með lostafullum hætti“. Það sést vel að það nær ekki alveg utan um verndarhagsmunina, eins og þetta nýja ákvæði gerir.“
Hún bendir á að sömuleiðis sé tekið fram í ákvæðinu að hægt sé að refsa fyrir brot af þessu tagi þó þau séu framin af gáleysi.
„Það var ekki hægt að gera áður. Svo er sérstaklega tekið fram að fölsun sé líka refsiverð, sem er líka mikilvægt. Það þýðir að ef þú tekur til dæmis andlitsmynd af einhverjum sem þú þekkir og skeytir henni inn á einhverja grófa klámmynd, setur á netið og lætur að því liggja að þetta sé viðkomandi, þá er það einnig brot.“