Fyrirhuguð uppbygging íbúðahverfis á Ártúnshöfða og Vogabyggð verður álíka fjölmenn og Grafarvogur en sjöfalt minni. Frumdrög um uppbyggingu á þessum svæðum gera ráð fyrir að um 20 þúsund íbúar rúmist á um 120 hektara svæði. Í Grafarvogi búa um 18 þúsund manns á tæplega 800 hektara svæði.
Á fimmtudag verður svokölluð forkynning deiliskipulagstillagna haldin þar sem Reykjavíkurborg kynnir tillögur sínar að uppbyggingu svæðisins. Á nýjum kynningarvef borgarinnar má einnig finna frekari upplýsingar.
Í samtali við mbl.is segir Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar og formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, að svæðið sé ámóta þétt og aðrir þéttingarreitir í borginni þar sem uppbygging íbúðarhúsnæðis er þegar hafin, eða lokið. Á svæðinu á Ártúnshöfða verði kjöraðstæður fyrir þá sem lifa bíllausum lífsstíl. Borgarlína verður að mestu leyti á sérrýmum og iðnaðarstarfsemi á að færast á Esjumela eða Hólmsheiði.
„Vissulega, við erum að byggja þéttar en þegar við vorum að byggja Staðarhverfið í Grafarvogi á sínum tíma, eða þá þessi hverfi sem byggðust upp um aldamótin. Það vill auðvitað mjög margt fólk búa í Reykjavík og það er engin leið fram hjá því að það verði auðveldara að kaupa húsnæði í Reykjavík en að byggja fleiri íbúðir, sem er það sem við erum að gera,“ segir Pawel
Pawel segir að við uppbyggingu nýs hverfis sé gert ráð fyrir þremur skólum, einum safnskóla og sundlaug. Þetta verði því hið bærilegasta hverfi. Á myndum sem Reykjavíkurborg hefur látið gera má sjá sérrými borgarlínu og græn svæði innan um þétta byggð, verslun og þjónustu.
Á myndinni hér að neðan má sjá fyrirhugað útivistarsvæði með sundlaug, sjósundaðstöðu og íþróttasvæði við Elliðavog. Sá hluti svæðisins fellur undir þriðja áfanga verkefnisins.
„Þegar áfangi 1-7 er kláraður þá erum við að tala um 8 þúsund íbúðir sem þýðir þá eitthvað um 20 þúsund íbúa byggð, sem er auðvitað heilmikið. Svo horfum við fram á byggingu tveggja eða þriggja grunnskóla og sundlaug, þannig þetta verður hið bærilegasta hverfi.“
En, hvað af þessu verður á landfyllingu, ef eitthvað, svipað og þá Bryggjuhverfið?
„Það er þá hluti af áfanga þrjú sem er ekki verið að skipuleggja núna en myndi verða skipulagður í næstu atrennu og hann er að einhverju leyti skipulagður þannig að það verði á landfyllingu. Það er gert ráð fyrir að sundlaugin rísi þegar að því kemur.“
Pawel segir að í nýju hverfi verði ákjósanlegt fyrir íbúa sem lifa bíllausum lífstíl að búa. Ferðatími frá svæðinu og niður á Hlemm með borgarlínu verður um 10 mínútur og skal borgarlína ekki ganga sjaldnar en á sjö mínútna fresti.
Þrátt fyrir það verði einkabílnum ekki úthýst. Gullinbrú og Ártúnsbrekka, tvær mikilvægar og fjölfarnar götur í Reykjavík, eru auðvitað ansi nærri. Sömuleiðis er stutt í stór mislæg gatnamót sem stýra bílum norður Sæbraut, vestur Miklubraut, suður í Kópavog og Breiðholt, og austur í átt að Grafarvogi.
„Einkabílnum verður ekkert úthýst á þessu svæði, en við erum að gera ráð fyrir að þessu svæði verði mjög vel þjónað af almenningssamgöngum, einmitt með borgarlínu. Þarna er verið að gera ráð fyrir tveimur stöðvum; stöð við Krossamýratorg og síðan stöð neðar við Elliðaárvoginn, stöð sem myndi heita Ártúnshöfði eða þá Höfðinn.
Þarna mun borgarlínan ganga í gegn að öllu leyti á sérrými, þannig maður getur horft til þess að ferðatími, til dæmis frá Krossmýri og niður á Hlemm verði eitthvað í kringum 10 mínútur, og að borgarlína fari að lágmarki á sjö mínútna fresti. Þannig að tengingin á að vera góð, þannig að þeir sem búa þarna, hvort sem það er fólk sem vinnur niðri í bæ, fólk sem vinnur á Landspítalanum, fólk sem stundar nám við háskólann, geti þá alla vega farið sínar daglegu, reglulegu ferðir öðruvísi en á bíl.“
Samkvæmt því sem Pawel segir er fyrirhugað að iðnaðarsvæðið sem nú stendur á fyrirhuguðu uppbyggingarsvæði víki fyrir grænni íbúabyggð. Þeir vita það sem keyrt, gengið eða hjólað hafa um Sævarhöfða að þar eru malbikunarstöð og steypustöð, ásamt Sorpu og gömlu mannvirki Björgunar, mannvirki sem skera í augu margra sem þarna fara um. Af teikningum að dæma virðist gamla mannvirki Björgunar við Sævarhöfða þó ekki hverfa.
Pawel segir að flest þessi starfsemi muni víkja og er horft til svæða á Esjumelum eða á Hólmsheiði í því sambandi. Þangað geti þessi starfsemi farið.
„Það er hluti þarna sem gert er ráð fyrir að verði þarna áfram um sinn,” segir Pawel um iðnaðarhverfið. „Sem er í rauninni svæði sem afmarkast af Stórhöfða og Breiðhöfða og snýr þá í suðaustur. En það er vissulega starfsemi þarna, malbikunarstöðvar og steypustöðvar, fyrir hluta af þessu er pláss fyrir á Esjumelum og við vonum að einhverjir vilji þiggja þær staðsetningar.
Svo er önnur starfsemi þarna sem er svona plássfrek eins og bílasölur sem eru, já, plássfrekar en ekki endilega mengandi sem vilja oft vera í útjaðri borgabyggðar. Við erum að sjá fyrir okkur að það geti verið á Hólmsheiði eða á Esjumelum. Þannig það eru þeir staðir sem þessi iðnaður, sem hefur verið þarna í marga áratugi við góðan orðstír, getur farið á.“
Spurður um hvort fyrirhuguð uppbygging sé til fleiri ára og jafnvel áratuga segir Pawel svo ekki vera. Hann trúi því frekar að uppbygging hefjist innan örfárra ára. Þrýstingur á borgaryfirvöld að koma verkefninu í framkvæmd og inna það vel og hratt af hendi verði mikill.
„Uppleggið er að skipulagið verði auglýst fyrir páska þannig að skipulagsvinnan getur þá klárast öðru hvoru megin við sumarfríið og þá getum við vonandi séð framkvæmdir á fyrsta og öðrum áfanga hefjast snemma á næsta ári. Að jafnaði tekur svona uppbygging þrjú til fjögur ár, þannig að við getum vonandi séð uppbyggingu þessa svæðis innan örfárra ára.“
„Ég hef trú á því að þegar gangur verður kominn á þetta verkefni verði þeim mun meiri þrýstingur á skipulagsvinnuna og að klára þetta því að fólk vill auðvitað koma lóðum í verð og byggja og selja, sem er bara gleðilegt.“