„Frá því að heimsfaraldur kórónuveiru hófst hafa verið endurgreiddir um 5,6 milljarðar króna aukalega af virðisaukaskatti (vsk) vegna margs konar framkvæmda en endurgreiðslurnar nýtast einkum einstaklingum og félögum á borð við sveitarfélög, almannaheillafélög og íþróttafélög.“
Þetta segir í tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá í gær. Stuðningsfjárhæðirnar eru uppfærðar vikulega á sérstökum tölfræðivef yfir úrræði stjórnvalda vegna kórónuveirunnar. Fram kemur að undanfarið hafi „Covid-tengdar endurgreiðslur“ verið að jafnaði um 300 milljónir króna í hverri viku.
Rúmlega 40 þúsund afgreiddar umsóknir standa að baki þessum endurgreiðslum. „Þar af eru tæpar 27 þúsund vegna íbúðar- og frístundahúsnæðis, 13 þúsund vegna bíla, 100 frá almannaheillafélögum og 400 frá sveitarfélögum,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins í Morgunblaðinu í dag.