Veronika Steinunn Magnúsdóttir
Augnaðgerðum á Landspítala var frestað vegna jarðskjálftahrinu sem fannst vel á höfuðborgarsvæðinu í dag. Þetta staðfestir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, í samtali við mbl.is.
Var aðgerðum frestað út daginn þar sem um er að ræða mikla nákvæmnisvinnu, en ekki fást frekari upplýsingar um frestanir á aðgerðum í aðdraganda jarðskjálftanna.
Öflugur skjálfti fannst víða á suðvesturhorni landsins rétt kl. 10.05 og var af stærðinni 5,7. Aðeins 25 mínútum síðar, eða kl. 10.30, varð annar skjálfti og mælist stærð hans nú 5, að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofunni.
Þess má geta að nýr Landspítali verður sérstaklega útbúinn til þess að standa af sér jarðskjálfta þar sem þess hefur verið krafist, að sögn Páls.