Allar byggingar Bláa lónsins voru yfirgefnar eftir að stóri skjálftinn reið þar yfir upp úr klukkan tíu í morgun. Það var gert samkvæmt viðbragðsáætlunum sem virkjaðar voru um leið og ljóst varð hvers kyns var.
Bláa lónið í Svartsengi er mjög skammt frá upptökum skjálftans.
„Við töldum ekkert vit í öðru en að yfirgefa staðinn,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, í samtali við blaðamann mbl.is.
Honum virtist við fyrstu sýn sem allt hefði sloppið í mannvirkjum fyrirtækisins. Skjálftinn hefði þó verið mjög öflugur.
Starfsmenn lónsins munu fara seinna í dag eða í fyrramálið til að kanna aðstæður þar.