„Ég hef ekki séð svona á minni vakt“

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri hjá náttúruvárvöktun Veðurstofunnar.
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri hjá náttúruvárvöktun Veðurstofunnar. mbl.is/Þorsteinn

Skjálftavirknin á Reykjanesi í dag hefur verið bundin við tvö svæði. Annars vegar norðvestan við Fagradalsfjall, þar sem áður hafa verið svona hrinur og svo við Núpshlíðarháls þar sem skjálfti varð 20. október. Kristín Jónsdóttir, hópstjóri hjá náttúruvárvöktun Veðurstofunnar, segir í samtali við mbl.is að mikill fjöldi stórra skjálfta eins og nú hafi riðið yfir sé ekki alveg nýtt, en hins vegar óvanalegt.

Kristín segir að virknin hafi byrjað við Fagradalsfjall, en svo hoppað yfir í Núpshlíðarháls og virkjað hrinu þar. Þegar þetta er skrifað hafa yfir 40 skjálftar verið yfir 3 að stærð og 13 upp á 4 eða meira að stærð. Þar er stærsti skjálftinn upp á 5,7 en einnig annar upp á 5.

„Þetta er ekki alveg nýtt, en það er óvanaleg að það mælist svona margir stórir,“ segir Kristín um þessa hrinu. „Ég hef ekki séð svona á minni vakt,“ segir hún spurð um hversu algeng eða óalgeng svona hegðun sé.

Strax eftir að fyrstu skjálftarnir riðu yfir mátti sjá stóra skjálfta á kortum Veðurstofunnar víða um land. Meðal annars við Litlu kaffistofuna, á Hellu, við Sigölduvirkjun og nálægt Akureyri. Kristín segir að þetta skýrist af miklum fjölda skjálfta á skömmum tíma og sé leiðrétt fljótlega og ítrekar að aðeins sé um upptök á fyrrnefndum tveimur stöðum að ræða. „Það sem gerist er að þegar svona margar bylgjur koma inn og í föstum, þá fer úrvinnslukerfið að rembast við að púsla saman skjálftunum og það verður til hellingur af skjálftum með vitlausar staðsetningar. Þetta gerist þegar það eru svona mikil læti.“ Þetta sé hins vegar leiðrétt mjög fljótlega við yfirferð.

Rétt rúmlega 11 þegar blaðamaður mbl.is kom við á Veðurstofu voru starfsmenn stofnunarinnar að leggja af stað í gasmælingar á svæðinu. Kristín segir að það sé gert á ákveðnum stöðum til að halda tímaröðum. Annars vegar er um að ræða Seltún í Krýsuvík og hins vegar Eldvörpin. Þar sé verið að skoða með mögulegar kvikuhreyfingar.

Kristín tekur fram að ekkert hafi komið fram hingað til sem gefi til kynna að kvikuhreyfingar eigi sér stað. Landris og landsig áttu sér stað á síðasta ári vestan við Þorbjörn og í Krísuvík. Kristín segir að ekkert bendi til þess að slíkt sé nú í gangi. „Það er ekkert sem bendir til eldgoss,“ bætir hún við.

Gæslan flaug yfir svæðið fyrir skömmu og segir Kristín að fólk hefði haft áhyggjur ef göngufólk væri til dæmis á Keili, þar sem miklar hreyfingar voru í skjálftanum 20. október. Hins vegar hafi enginn bíll verið á stæðinu þar. Einhverjir hafi hins vegar verið að príla á Þorbirni, en engar fréttir séu um slys á fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert