Nýjar sóttvarnaráðstafanir tóku gildi á miðnætti, þar sem verulega er slakað til á ýmsum sviðum mannlífsins. Þær eiga að gilda til 17. mars.
50 manns mega nú almennt koma saman í stað 20, eins og hefur gilt um margra mánaða skeið.
Í ýmsum aðstæðum er þó leyfilegt að 200 komi saman, svo sem í leikhúsi, í áhorfendastúku fyrir íþróttaviðburði, á trúarviðburðum og jafnvel á ráðstefnum og fyrirlestrum.
Þar gildir þó eins metra regla og grímuskylda. Áfengissala á svona viðburðum er óheimil, allir þátttakendur þurfa að vera skráðir og snúa í sömu átt.
Veitingastaðir og barir mega nú hleypa inn nýjum gestum þar til klukkan 22 en allir skulu hafa yfirgefið staðinn fyrir klukkan 23. Þar með er opnunartími lengdur um klukkustund.
Í líkamsrækt mega nú 50 vera saman í hólfi, en samtals 200 á hverjum stað. Í World Class Laugum, þar sem hafa verið fjögur hólf, gætu því allt að 200 verið saman komnir. Eigandi World Class hefur þó gefið út að svo verði ekki.
Nokkur tíðindi eru að áhorfendur megi vera á íþróttaviðburðum en þeim eru þó nokkuð þröngar skorður settar. Einn metri þarf að vera á milli óskyldra aðila og allir þurfa að vera sitjandi ef 200 manns eiga að mega koma saman. Ef áhorfendur eru standandi mega þeir aðeins vera 50.
Að lokum stefnir í að öll skólastig geti hafið meira og minna eðlilega starfsemi og haldið henni þannig út skólaárið. Í háskólum og menntaskólum má staðnám fara fram að öllu leyti, svo fremi sem ekki séu fleiri en 150 í sama rými. Reglur um skólastarfsemi gilda þá lengur en aðrar, nefnilega til 30. apríl.