Lagt er til að hafinn verði formlegur undirbúningur útboðs tveggja ljósleiðaraþráða Atlantshafsbandalagsins á Íslandi í skýrslu starfshóps um ljósleiðaramál og útboð ljósleiðaraþráða á vegum utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra sem skilaði ráðherra skýrslu í dag. Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var formaður hópsins og afhenti ráðherra skýrsluna í utanríkisráðuneytinu í dag.
Starfshópurinn telur útboð á tveimur ljósleiðaraþráðum Atlantshafsbandalagsins á Íslandi hafa jákvæð áhrif á samkeppni á fjarskiptamarkaði, þjóðaröryggi og varnarhagsmuni Íslands.
Leitast var við að gera heildstæða úttekt og mat á ljósleiðaramálum á Íslandi með tilliti til þjóðaröryggis og þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands, efna til samráðs við Atlantshafsbandalagið um hugsanlega hagnýtingu á aukagetu ljósleiðarakerfisins bandalagsins og leggja grunn að útboðsgögnum.
Á Íslandi eru átta þræðir í einum streng ljósleiðara. Í dag eru fimm þeirra í eigu Mílu sem notar þá til að byggja upp þjónustu sína á landsvísu. Hinir þrír eru á eignaskrá Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins og í dag er par nýtt fyrir samskipti milli stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og ratsjár- og fjarskiptastöðvanna. Einn hefur síðan verið í leigu hjá Vodafone frá árinu 2010.
Lagt er til í skýrslu starfshópsins að losað verði um einn þráðanna sem í dag á milli ratsjár- og fjarskiptastöðva og stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar og þar sem samningur Vodafone við ríkið rennur út í lok árs verði þeir báðir boðnir út. Starfshópurinn tekur ekki afstöðu til þess hvort bjóða eigi út þræðina saman eða sinn í hvoru lagi.
Gunnlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segir í samtali við mbl.is að sviðsmyndagreining hafi verið unnin með Atlantshafsbandalaginu. „Það er ekki verið að leggja neitt til sem er að draga úr öryggi þess sem strengurinn verður að nýta,“ segir Gunnlaugur Þór aðspurður hvort að engin hætta geti falist í því að fækka strengjum sem sinna þjóðaröryggishlutverki um einn.
Hann segir það ánægjulega við stöðuna er að hægt sé að losa um strenginn án þess að gefa afslátt af öryggi.
Haraldur Benediktsson, formaður starfshópsins og þingmaður, segir meginmálið að fjölga þeim sem geta selt stofntengingar inn á þéttbýlisstaði. „Þannig að tenging á dreifineti fyrir byggðalag eins og Blönduós geti þá verið á samkeppnismarkaði. Í dag er verðskrá Mílu bara sett af Póst- og fjarskiptastofnun, en hún getur eyðilagt hagkvæmni uppbyggingar oft á tíðum. Það er ekki við Mílu að sakast, en við trúum því að ef við fáum annan aðila sem getur keppt í stofntengingum, þá leysum við einhverja krafta það sem menn vilja byggja dreifikerfi í þéttbýli sem er alveg óháð aðilum sem eru á stofntengimarkaði,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is