Engar tilkynningar hafa borist um meiðsli á fólki eða tjón á mannvirkjum, eftir að öflugur skjálfti varð á Reykjanesi upp úr klukkan tíu í morgun. Fjöldi snarpra eftirskjálfta hefur fylgt í kjölfarið.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fylgist vel með þróun mála í samvinnu við lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum auk Veðurstofunnar, að því er segir í tilkynningu frá almannavörnum.
Lögreglan á Suðurnesjum fer nú um svæðið til að kanna áhrif skjálftans. Þá er þyrla Landhelgisgæslunnar farin á svæðið til að kanna aðstæður.
Óvissustig almannavarna hefur verið í gildi á Reykjanesi vegna landriss á svæðinu síðan 26. janúar.
Almannavarnadeild hvetur fólk á þekktum jarðskjálftasvæðum til kynna sér varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta á heimasíðu almannavarna.
Þar er einnig að finna leiðbeiningar um viðbrögð eftir jarðskjálfta.