Nóg var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag milli klukkan 11 og 17 þar sem tilkynnt var um sjö umferðaróhöpp.
Það fyrsta varð um kortér fyrir tvö í Breiðholti þar sem bílar skullu saman. Fólk leitaði aðstoðar á slysadeild en ekki er talið að meiðsli þess hafi verið alvarleg. Báðar bifreiðar voru dregnar burt af slysstað.
Tilkynning barst um næsta óhapp 16 mínútum síðar, að þessu sinni í Hlíðahverfi. Þar urðu engin meiðsl á fólki.
Svo var aftur tilkynnt um umferðaróhapp laust fyrir klukkan fjögur í miðbænum. Aftur engin slys á fólki. Annað óhapp varð í miðbænum skömmu eftir klukkan fjögur og urðu þar engin slys á fólki en minni háttar tjón varð á bílum.
Þá varð einnig óhapp í Hafnarfirði skömmu eftir klukkan fjögur en rétt áður en það gerðist varð umferðaróhapp í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Í báðum tilfellum var ekkert frekar frá því greint í dagbók lögreglu.
Svo var það klukkan 16:17 sem óhapp varð á Vesturlandsvegi, skammt hjá fráreininni að Suðurlandsvegi. Þar urðu engin slys á fólki en báðar bifreiðar voru óökuhæfar og tafðist umferð nokkuð vegna þessa.