Þrjátíu megavatta túrbína virkjunarinnar í Svartsengi datt út tvívegis á meðan og eftir að stór jarðskjálfti varð á Reykjanesi upp úr klukkan tíu í morgun.
Fljótlega eftir tókst þó að koma orkuverinu aftur í gang.
Þetta segir Tómas Már Sigurðsson forstjóri HS Orku í samtali við blaðamann mbl.is.
Orkuverið hafi í kjölfarið verið rýmt og allar skrifstofur HS Orku í Svartsengi sömuleiðis. Falskt loft hrundi niður á skrifstofunum. Nú séu ekki aðrir við störf en þeir menn sem keyra vélarnar.
Aðstæður verði kannaðar síðar í dag og hvort óhætt sé fyrir annað starfsfólk að snúa aftur til vinnu.
Í tilkynningu frá Landsneti segir að raforkukerfið sé nú stöðugt og að fylgst sé vel með framvindunni. Búið sé að skoða tengivirki og línur á svæðinu og það líti út fyrir að engar skemmdir hafi orðið.