Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, var staddur í Reykjanesbæ þegar skjálftinn í morgun reið yfir. Vilhjálmur er búsettur í Grindavík og segir bæjarbúa þar vera ýmist langþreyttir á skjálftahrinu eða þá að þeir taki atburðarásinni með miklu jafnaðargerði.
Vilhjálmur telur einnig að ekki sé síður tilefni til varúðar á höfuðborgarsvæðinu en á Suðurnesjum, þar sem byggð er hvað næst skjálftamiðjunni. Hann segir að skjálftarnir finnist ekkert síður í bænum en á Suðurnesjum og jafnvel meira.
„Ég var á fjarfundi í Þingvallanefnd þegar hádegisskjálftinn reið yfir. Ég fann alveg fyrir honum en fólkið sem var statt í Reykjavík sagði hann hafa verið alveg jafnstór og þessi um morguninn,“ segir Vilhjálmur við mbl.is.
„Ég átta mig á því að bergið hérna á Reykjanesskaganum er kannski aðeins öðruvísi en á höfuðborgarsvæðinu, þannig kannski finnast skjálftarnir öðruvísi.“
Seinast þegar við ræddum saman, Vilhjálmur, þá var það eftir jarðskjálftann í haust. Þá sagðirðu að jörðin hafi frekar dúað en skolfið. Var það sama upp á teningnum núna?
„Já, í raun og veru þetta er svolítið svoleiðis. Sonur minn fann einmitt einhvern veginn þannig fyrir þessu. Hann sagði að fyrst hafi Ísland verið þarna, og síðan hafi það verið þarna!“
Vilhjálmur segir að í skjálftanum núna hafi viðbrögð fólks verið önnur en í stóra skjálftanum síðastliðinn október. Aðallega að því leyti að í dag hafi fólk frekar flúið út úr húsum. Þannig var starfsfólki HS Orku og Bláa Lónsins gert að yfirgefa sínar starfsstöðvar og halda heim. Þjónusta HS Orku var þó auðvitað tryggð.
„Svo sá ég að erlendir íbúar á svæðinu leituðu út á götu. Þeir voru kannski ögn lengur að ná áttum enda jarðskjálftar í mörgum tilfellum meira framandi fyrir þeim en okkur Íslendingunum. Margir eru kannski vanari ótryggari húsakosti og bregðast því réttilega við með því að leita skjóls.“
Vilhjálmur segir Grindvíkinga þó marga finna til öryggistilfinningar. Vel sé haldið um bæjarbúa og að það sé gott að vita af því að Veðurstofa og Almannavarnir fylgist grannt með svæðinu.
„Við upplifum að það sé um okkur haldið og erum undirbúin undir svona og höfum mörg gert ráðstafanir í okkar húsum. Þar er kannski eitthvað sem höfuðborgarbúar hafa margir ekki gert og mér finnst fólk núna finna að þetta sé aðeins nær þeim, þetta sé ekki bara þarna úti í Grindavík. Það er því ekki síður ástæða til varúðar í bænum en hér á Suðurnesjunum.“