„Þetta var óþægilegt“

„Þetta var óþægilegt, þeir voru svo margir,“ segir Anna María Reynisdóttir, íbúi í Grindavík um skjálftahrinuna sem gerði bæjarbúum svo bylt við í morgun. „Sumum líður illa en aðrir bera sig betur,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri um líðan bæjarbúa eftir jarðskjálftan en verið er að ákveða næstu skref í viðbrögðum bæjarins.

Augljóst er að bæjarbúar fundu vel fyrir skjálftanum í morgun. Hér í Grindavík er mikið af fólki í göngutúrum og margir eru að viðra dýrin sem hræddust líka í við skjálftann sem var af stærðinni 5,7 og átti upp­tök sín 3,3 kíló­metra suð-suðvest­ur af Keili á Reykja­nesskaga. 

Í myndskeiðinu er rætt við Fannar og Önnu Maríu ásamt Fanný Þóru Erlingsdóttur sem var stödd á annarri hæð á bæjarskrifstofunni. 

Jörð skelfur enn reglulega og frá því að ég kom hingað um ellefuleytið hafa þrír hraustlegir skjálftar riðið yfir. Einn viðmælandi sem ekki vildi koma fram undir nafni segir viðvörunarkerfi bíls síns hafa farið í gang og að hún hafi séð jörðina bylgjast. Annar fann fyrir höfuðverk eftir að hafa stífnað upp við fyrsta skjálftan. Allir eru sammála um að þetta hafi verið það mesta sem þeir hafi fundið og eru Grindvíkingar ýmsu vanir þegar það kemur að jarðskjálftum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka