Fjölskylda konu sem lést á Heilbrigðisstofnu Suðurnesja telur að rannsaka beri meðferð sem móður þeirra fékk sem manndráp. Móðir þeirra hafi verið send í lífslokameðferð án sýnilegrar ástæðu. Er vísað í álit Landslæknis málinu til stuðnings.
Stöð 2 greindi frá því að læknir hjá HSS hafi hætt störfum í kjölfar raða mistaka í starfi skv áliti frá embætti Landlæknis. Þá kom fram í fréttum stöðvar 2 í kvöld að maðurinn sé í starfi hjá Landspítalanum.
Yfirlýsing fjölskyldunnar er svohljóðandi:
„Vegna frétta af rannsókn Landlæknisembættisins á máli læknis sem til skamms tíma var starfandi á Heilbrigðisstofnun Suðunesja viljum við undirrituð koma eftirfarandi á framfæri:
Mál þetta hófst með kvörtun okkar vegna þeirrar þjónustu sem móðir okkar fékk í hvíldarinnlögn á legudeild HSS haustið 2019. Þáverandi yfirlæknir var ábyrgur fyrir meðferð hennar. Þegar hún lagðist inn var hún ekki greind með neinn lífsógnandi sjúkdóm og var ekki á neinum sterkum lyfjum. Hún var sett á lífslokameðferð samdægurs, án þess að vera spurð álits á því eða vera upplýst um það.
Í áliti landlæknis eru athugasemdir gerðar við fjölda þátta í meðferð HSS á móður okkar. Þær alvarlegustu varða lífslokameðferð sem hún sætti án þess að nokkrar forsendur væru fyrir hendi sem réttlættu þá ráðstöfun. Lífslokameðferð er lokastig líknarmeðferðar og felur það í sér að ekkert er gert til að lengja líf sjúklings, sýkingar ekki meðhöndlaðar og næringu og vökva ekki haldið að sjúklingnum. Slíkri meðferð er aðeins beitt þegar sjúklingur er að dauða kominn og stendur hún venjulega aðeins í örfáa daga.
Þrátt fyrir ítrekaðar spurningar fengum við engar skýringar á því hvaða sjúkdómar væru að draga móður okkar til dauða eða hversvegna hún væri á stórum skömmtum af slævandi lyfjum. Upplýsingar sem við fengum voru í mikilvægum atriðum rangar; bæði yfirlæknirinn og annar læknir sem kom að meðferð hennar fóru með ósannindi sem voru til þess fallin að koma í veg fyrir björgunartilraunir aðstandenda.
Síðustu vikurnar voru móður okkar hreint kvalræði. Þar sem henni var haldið í lyfjamóki var ekki hægt að ná eðlilegu sambandi við hana. Þegar hún gerði tilraunir til að hafna meðferð, t.d. með því að losa sig við nálar og lyfjaplástra var litið á það sem hegðunarvandamál. Sýkingar voru ekki meðhöndlaðar. Þegar fór að draga svo af henni að hún hætti að bera sig eftir næringu og vökva var ekkert gert í því. Enda var hún á lífslokameðferð – án ástæðu.
Fram hefur komið í fréttum að mál læknisins sé á borði lögreglu. Hvað nákvæmlega það er sem lögreglu var falið að rannsaka er þó óljóst. Við systkinin höfum komið þeirri afstöðu á framfæri við lögregluna á Suðurnesjum að við teljum álit landlæknis gefa tilefni til þess að rannsaka málið sem manndráp. Vísum við í því sambandi til lokaorða í álitsgerðinni. Þar kemur fram að gögn málsins styðji ekki þær skýringar læknisins að lifslokameðferð hafi verið skráð fyrir mistök en að í raun hafi verið um einkennameðferð að ræða. Telur landlæknir að þvert á móti hafi meðferðin frá fyrsta degi verið samsvarandi lífslokameðferð að eðli og framkvæmd. Þá segir orðrétt í álitinu:
"Þetta hafði þær afleiðingar að mati landlæknis að í ellefu vikna langri legu hrakaði DJ; hún var með legusár, næringarskort og sýkingar allt fram til andlátsins, sem verður að telja líklegt að hafi orðið fyrr en ella vegna þeirrar meðferðar sem hún hlaut."
Móðir okkar dó 73 ára að aldri. Læknirinn sem setti hana á tilefnislausa lífslokameðferð er nú við störf á bráðalyflækningadeild Landspítalans,“ segir í yfirlýsingunni.
Undir yfirlýsinguna rita:
Eva Hauksdóttir
Hugljúf Dan Hauksdóttir
Borghildur Hauksdóttir
Guðbjörn Dan Gunnarsson