Í hringborðsumræðum sjónvarpsstjóranna þriggja, Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra, Heiðars Guðjónssonar, forstjóra Sýnar, og Orra Haukssonar, forstjóra Símans, í ViðskiptaMogganum í gær, segir Heiðar að verðskrá útvarpsauglýsinga RÚV hafi lækkað um 20% eftir síðasta þjónustusamning menntamálaráðuneytisins og RÚV sem kynntur var í desember sl. og tók gildi tíunda þess mánaðar.
Þá kvartaði Heiðar undan skorti á gagnsæi í verðskrá RÚV. Þessu svaraði Stefán með þeim orðum að breytt hefði verið um kerfi, tekið hefði verið upp punktakerfi í útvarpi sem verið hefði við lýði í sjónvarpi sl. tíu ár.
Þá sagði Stefán að verðskráin væri skýr og aðgengileg og væri aðgengileg á heimasíðu RÚV. Enginn þyrfti að velkjast í vafa um hvað kosti að auglýsa í Ríkisútvarpinu.
Morgunblaðið hafði samband við sérfræðing á auglýsingamarkaðnum til að komast til botns í því hvort um verðlækkun hefði verið að ræða eður ei.
Punktakerfið sem Stefán minnist á í umræðunum (Leiknar auglýsingar – CPM) er svokallað CPM-kerfi, sem stendur fyrir Cost Per Mile, eða kostnað á hver þúsund „eyru“ eða hverja þúsund hlustendur sem auglýsingin nær til.