Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar auglýsir nú breytingar á aðalskipulagi og deiluskipulagi þar sem gert er ráð fyrir að baðstaður rísi í Vaðlareit í landi Ytri-Varðgjár. Breytingarnar voru samþykktar í sveitarstjórn 14. janúar sl.
Svæðið, sem áður var skipulagt sem skógræktarsvæði, verður samkvæmt skipulagstillögu skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði. Gert er ráð fyrir baðstað um 1200 fm að stærð með vegghæð að hámarki 6,5 m. Þar að auki er gert ráð fyrir um 500 fm baðlaugum utandyra, aðstöðu fyrir gufubað auk bílastæðis og aðkomuvegar. Fram kemur í aðalskipulagi að byggingar baðstaðarins skuli falla vel að umhverfinu.
Áætlað er að veita heitu vatni sem rennur nú út í sjó, eftir framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng, í samvinnu við Norðurorku er kemur fram í umfjöllun N4 um áformin. Þá kemur einnig fram að gangi áætlanir eftir muni baðstaðurinn taka við fyrstu gestunum á næsta ári.