Ellen Calmon varaborgarfulltrúi og fulltrúi framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar var endurkjörin formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík með öllum greiddum atkvæðum á aðalfundi í kvöld.
Þá var Herbert Baldursson einnig endurkjörinn gjaldkeri félagsins með öllum greiddum atkvæðum, að því er segir í tilkynningu.
Stjórnina skipa auk Ellenar og Herberts:
Sigfús Ómar Höskuldsson
Sabine Leskopf
Vilborg Oddsdóttir
Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir Backman
Sten Olav Romslo
Varamenn eru:
Mörður Árnason
Halla Gunnarsdóttir
Kikka Sigurðardóttir
Barbara Bruns Kristvinsson
Þorkell Hreiðarsson
Fram kemur í ályktun að það sé löngu tímabært að ríkisstjórn Íslands og önnur stjórnvöld sýni sama stórhug í loftslagsmálum og borgarstjórn Reykjavíkur hafi gert undir forystu Samfylkingarinnar.
Ekkert bóli heldur á markvissum aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar til að fjölga störfum í atvinnukreppunni sem ríki.
Ályktunin í heild sinni:
„Borgarlína og markviss þétting byggðar á höfuðborgarsvæðinu eru stórtækustu og metnaðarfyllstu aðgerðir íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum hingað til. Samfylkingin í Reykjavík hefur frá upphafi veitt þessum verkefnum forystu af miklum myndugleik. Með Græna planinu hefur borgarstjórn Reykjavíkur ennfremur vísað veginn um það hvernig standa má að efnahagslegri endurreisn í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru og ráðast um leið í kraftmikla græna uppbyggingu. Græna planið er sóknaráætlun sem leggur línurnar í fjármálum, fjárfestingu og grænum lykilverkefnum, sóknaráætlun sem byggist á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun með skýrri framtíðarsýn um kolefnishlutlaust borgarsamfélag.
Fjölga þarf störfum og leggja grunn að umhverfisvænni umbyltingu efnahagslegrar starfsemi í landinu. Ýta þarf kröftuglega undir breyttar ferðavenjur með aðgengilegum, raunhæfum vistvænum valkostum í samgöngum og stuðla þannig að kolefnishlutlausu Íslandi.
Það er löngu tímabært að ríkisstjórn Íslands og önnur stjórnvöld sýni sama stórhug í loftslagsmálum og borgarstjórn Reykjavíkur hefur gert undir forystu Samfylkingarinnar. Þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur lítill árangur náðst á sviði loftslagsmála á landsvísu. Þá bólar enn ekkert á markvissum aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar til að fjölga störfum í dýpstu atvinnukreppu á Íslandi frá upphafi mælinga.
Næsta haust verður kosið til Alþingis. Í kjölfarið er nauðsynlegt að mynduð verði græn félagshyggjustjórn sem fer ábyrgu leiðina að grænni framtíð þar sem tekið er á loftslagsvánni og fjöldaatvinnuleysi í landinu, jöfnum höndum og af þeirri festu sem til þarf þar sem engin er undanskilin. Framlag til þeirrar stjórnarstefnu má finna í stefnuskjali þingflokks Samfylkingarinnar um Ábyrgu leiðina, auk Græna plansins í höfuðborginni.“