Gengur sáttur frá borði eftir 33 ára feril

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis hefur fengið lausn frá embætti frá og með 1. maí næstkomandi. Tryggvi segist hafa notið þess að sinna störfum sínum og rækja það verkefni að greiða úr málum borgara í umboði Alþingis gagnvart stjórnsýslunni. 

Tryggvi hefur starfað sem umboðsmaður Alþingis frá 1. nóvember 1998 eða í rúm 22 ár. Samleið Tryggva með starfi umboðsmanns er þó lengri því hann vann með forvera sínum Gauki Jörundssyni að undirbúningi að opnun skrifstofu umboðsmanns árið 1988, var síðan sérstakur aðstoðarmaður umboðsmanns árið 1989 og aðstoðaði umboðsmann við afgreiðslu mála samhliða störfum sínum sem lögmaður á árunum 1990 til 1998. 

„Um þessar mundir eru liðin 33 ár síðan ég kom fyrst að starfi umboðsmanns Alþingis. Allan þennan tíma hef ég notið þess að sinna þessum störfum og rækja það verkefni að greiða úr málum borgaranna í umboði Alþingis gagnvart stjórnsýslunni. Lögfræðilega hefur þetta líka verið einstaklinga áhugavert og gefandi. Fá svið lögfræðinnar hafa á þessum tíma tekið sambærilegum breytingum og stjórnsýslurétturinn og þar hefur starf umboðsmanns Alþingis átt sinn þátt,“ segir Tryggvi á vef umboðsmanns. 

„Ég hef að undanförnu átt þess kost að standa upp frá daglegum störfum umboðsmanns og huga að því sérstaka áhugamáli mínu að auka fræðslu fyrir starfsmenn stjórnsýslunnar, bæði ríkis og sveitarfélaga, um starfshætti í stjórnsýslunni og þær reglur sem gilda um meðferð mála þar og þjónustu í þágu borgaranna. Liður í því er að taka saman aðgengilegt fræðsluefni um þessi mál og koma fræðslu um þau í fastari skorður. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem ég vil gjarnan fá tækifæri til að leggja lið áður en líður um of á starfsævi mína en eðli verkefna og annir í starfi umboðsmanns eru þannig að veruleg takmörk eru á að öðru verði sinnt samhliða því,“ segir Tryggvi. 

Umboðsmaður er kjörinn á Alþingi til fjögurra ára í senn. Nú er hafin vinna við tilnefningu næsta umboðsmanns, en stofnuð hefur verið sérstök undirnefnd innan forsætisnefndar með það hlutverk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert