Ísland er með fullt hús stiga hvað varðar jafnrétti samkvæmt rannsóknarskýrslu sem unnin var af tímaritinu Women, Business and the Law, á vegum Alþjóðabankans. Var rannsóknin framkvæmd á milli septembermánaðar 2019 og októbermánaðar 2020.
Ísland er í hópi níu landa með fullt hús stiga í rannsókninni, hundrað stig, en árið áður voru þau einungis sex talsins.
Alls tóku 27 lönd framförum í jafnréttismálum og bættu við sig stigum á meðan lönd á borð við Jemen, Kúveit og Katar fengu minna en 30 stig.
Auk Íslands ná Belgía, Kanada, Danmörk, Frakkland, Lettland, Lúxemborg, Portúgal og Svíþjóð fullu húsi stiga, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Alþjóðabankinn telur heimsfaraldurinn hafa skapað nýjar áskoranir fyrir konur um heim allan þrátt fyrir örlitlar bætingar í jafnréttismálum. Vegið sé að rétti þeirra á ýmsan hátt, til dæmis með lögum sem hefta ferðafrelsi þeirra og þar vísað til löggjafar í Sádi-Arabíu þar sem konum er meinað að ferðast til annarra landa án þess að vera í fylgd með karlmanni.