Jarðskjálfti 3,5 að stærð mældist klukkan 14.35 rétt norðan við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga. Tilkynningar hafa borist Veðurstofu Íslands um að skjálftinn hafi fundist í byggð, á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu.
Er um að ræða stærsta skjálftann í hrinunni á skaganum síðan um klukkan hálf fjögur í nótt þegar skjálfti 3,5 að stærð mældist rétt norðan við Krýsuvík.
Hrinan er enn í gangi en rúmlega 2500 jarðskjálftar hafa verið staðsettir með sjálvirka jarðskjálftamælikerfi Veðurstofu Íslands frá miðnætti.
Í gær, 24. febrúar, mældust tveir jarðskjálftar yfir 5 að stærð. Sá stærri varð kl. 10:05 af stærð 5,7 og annar kl. 10:30 af stærð 5. Klukkan 12:37 varð svo skjálfti af stærð 4,8. Ellefu jarðskjálftar yfir 4 að stærð hafa mælst.