Fríverslunarviðræður Bretlands og EFTA-ríkjanna innan EES, Íslands, Noregs og Liechtenstein, voru efst á baugi á fjarfundi ráðherra utanríkisviðskipta þessara ríkja í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segir viðræðurnar ganga vel og vonast til þess að fríverslunarsamningur geti tekið gildi á þessu ári.
Á fjarfundi utanríkisviðskiptaráðherranna kom fram mikil ánæga með gang viðræðnanna og voru útistandandi atriði rædd er kemur fram í tilkynningu frá stjórnarráðinu í dag. Þá segir að Guðlaugur Þór hafi ítrekað smæð íslensks landbúnaðar og viðkvæmni gagnvart innflutningi á landbúnaðarafurðum á fundinum.
Fundinn sátu auk Guðlaugs Þórs, Ranil Jayawardena, ráðherra utanríkisviðskipta í Bretlandi, Iselin Nybø, utanríkisviðskiptaráðherra Noregs og Katrin Eggenberger, utanríkisráðherra Liechtenstein.
Í gildi er bráðabirgðafríverslunarsamningur Íslands og Bretlands sem tók gilfi þann 1. janúar.