„Þetta reyndist vera gabb en auðvitað eru svona hótanir teknar mjög alvarlega,“ segir Steinn Jóhannsson, rektor MH, við mbl.is. Sprengjuhótun barst á netfang Menntaskólans við Hamrahlíð í nótt og skólahald fellur af þeim sökum niður fyrir hádegi.
Lögreglan telur sig vita hver stendur að baki hótuninni, en sá er staddur erlendis og hefur áður haft í hótunum með þessum hætti. Auk þess hafa lögreglu borist tilkynningar um sprengjuhótanir við þrjár aðrar stofnanir í morgun.
Steinn segir að skólanum hafi borist tölvupóstur á ensku í nótt þar sem kom fram að sprengja myndi springa í skólanum í dag.
„Ég fæ tölvupóstinn sendan til mín og opna hann 7.20. Þá fer viðbragðaáætlun af stað,“ segir Steinn en hann og tveir aðrir starfsmenn voru þá einir í skólanum.
„Lögreglan kom strax á staðinn og á meðan sendi ég tilkynningu á nemendur og starfsfólk,“ segir Steinn og bætir við að sem betur fer hafi verið hægt að bregðast við áður en fleiri komu í skólann í morgun.
Steinn segir að auðvitað hafi honum brugðið við að sjá póstinn og allir hafi tekið þessu mjög alvarlega. Hann kannast ekki við netfang sendanda en pósturinn af nafnlaus.
Kennsla hefst aftur í skólanum klukkan 12.55 en sálfræðingur mun senda nemendur póst og fara yfir atriði sem snerta andlega líðan. „Við tökum vel á móti nemendum á eftir,“ segir Steinn.