Tekur radarmynd af Reykjanesskaga

Jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesskaga um tíuleytið í gærmorgun.
Jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesskaga um tíuleytið í gærmorgun. mbl.is/kort

Sentinel, gervitungl Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA), mun klukkan 19 í kvöld taka radarmynd af Reykjanesskaga.

Nota má myndina til að skilja betur þær jarðskorpuhreyfingar sem urðu í jarðskjálftunum í gær.

Fram kemur á vef Jarðvísindastofnunar Íslands að varanleg breyting verði á lögum jarðskorpunnar við jarðskjálfta, til viðbótar þeim hristingi sem fólk finnur. Meðal annars er notuð GPS-tækni til að mæla jarðskorpuhreyfingarnar. Símælandi GPS-stöðvar á Reykjanesskaganum sýna greinilega færslur sem nema nokkrum sentímetrum vegna jarðskjálftanna sem urðu í gær.

Meginskjálftinn, sem var 5,7 að stærð, var sniðgengisskjálfti, líklega á hægri handar sniðgengi, samkvæmt Jarðvísindastofnun Bandaríkjanna.

„Þessi stefna og stærð skjálftans er áþekk því sem var 20. október 2020, en upptök þess skjálfta voru um 3 km austan við skjálftann 24. febrúar. Skjálftar af þessari tegund valda einkennandi jarðskorpuhreyfingum, með stærstu færslunum nálægt misgenginu sjálfu og til átta mynda um 45° horn á stefnu misgengisins,“ segir í pistli Halldórs Geirssonar, jarðeðlisfræðings við Háskóla Íslands.

Samanburður mælinga og líkans leiðir í ljós ákveðið samræmi en einnig misræmi milli mælinga og líkans. Greinilegt misræmi er við Svartsengi, þar sem stöðin hefur færst til norðvesturs í stað norðurs eða norðausturs eins og búast mætti við, segir í pistlinum. Það bendi til þess að umtalsverðar jarðskorpuhreyfingar hafi einnig verið á öðrum misgengjum, t.a.m. nærri Svartsengi, eins og ljóst megi vera af þeirri jarðskjálftavirkni sem átti sér stað í kjölfar meginskjálftans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert