Halla Rut Bjarnadóttir, fyrrum forráðamaður starfsmannaleigunnar Manna í vinnu, fagnar niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sem Efling sótti gegn fyrirtækinu og Eldum rétt. Hún íhugar nú að höfða skaðabótamál vegna málsins.
Menn í vinnu og Eldum rétt höfðu betur í málinu; niðurstaða dómsins var að vísa frá öllum kröfum á hendur Eldum rétt og þrotabúi Manna í vinnu og sýkna fyrrverandi stjórnendur Manna í vinnu.
„Það var mikil gleði hjá fjölskyldu minni og vinum í gær, þegar við sáum hvernig þetta fór. Það er auðvitað líka fólk hérna megin,“ segir Halla. Þrátt fyrir að dómurinn hafi fallið hafi fréttamiðlar hins vegar farið af stað og dregið niðurstöðuna í efa.
„Síðan vaknar maður upp við fréttir þar sem allt er dregið í efa og við erum talin jafnsek. Hún [Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar] hættir aldrei. Maður veit ekki hvenær þetta fólk ætlar að hætta. Þetta fjallar ekki lengur um kjarabaráttu fyrir Eflingu,“ segir Halla og bætir við að málið hafi lagst þungt á sig og sína nánustu.
„Maður situr og hugsar með sér: eru þessar lygar enn að ganga, þrátt fyrir að dómurinn sé fallinn?“, spyr hún í lokin.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í tilkynningu í gær að ótvírætt sé í dóminum að lýsing Eflingar á aðbúnaði starfsmanna hafi ekki verið í samræmi við staðreyndir málsins og málshöfðunin því tilefnislaus. Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Rúmenanna er á öðru máli og segir afstöðu dómsins forneskjulega.