Tveir skjálftar yfir 3 að stærð í nótt

Jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesskaga um tíuleytið miðvikudaginn 24. febrúar 2021.
Jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesskaga um tíuleytið miðvikudaginn 24. febrúar 2021. mbl.is/kort

Tveir skjálftar yfir þrír að stærð riðu yfir Reykjanesskagann í nótt. Sá síðari, klukkan 3:26, var 3,4 að stærð og fannst hann mjög vel víða á höfuðborgarsvæðinu. Upptök hans voru 2 km norður af Krýsuvík. 57 skjálftar hafa mælst yfir 3 að stærð frá því jarðskjálftahrinan hófst í gærmorgun. Skömmu fyrir eitt í nótt varð skjálfti sem mældist 3,1 stig. Íbúar í Grindavík hafa fundið vel fyrir þessum skjálftum.

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að áfram verði fylgst grannt með stöðu mála en stöðug skjálftavirkni er á Reykjanesskaga og venjulega taki það nokkra daga að koðna niður í venjulegum aðstæðum. 

Jarðskjálftarnir hafa flestir verið á svipuðum slóðum en í gærkvöldi urðu nokkrir skjálftar suðvestur af Keili að sögn Einars. 

Í gær, 24. febrúar, mældust tveir jarðskjálftar yfir 5 að stærð. Sá stærri varð kl. 10:05 af stærð 5,7 og annar kl. 10:30 af stærð 5. Klukkan 12:37 varð svo skjálfti af stærð 4,8. Ellefu jarðskjálftar yfir 4 að stærð hafa mælst. Þeir hafa fundist víða á suðvesturhorninu og allt norður í Húnaþing og vestur á Ísafjörð. Sjálfvirka staðsetningarkerfi Veðurstofunnar mældi í gær rúmlega 1.800 jarðskjálfta á og við Reykjanesskaga, virknin er bundin við hann og aðrar staðsetningar á skjálftum eru óáreiðanlegar.

Í jarðskjálftum sem þessum getur grjóthrun orðið og jafnvel skriður eða snjóflóð fallið. Eitthvað hefur verið um skriðuföll á Reykjanesi vegna skjálftanna. Meðal annars féll talsvert af grjóti yfir gamla Suðurstandarveginn sem nú er aflagður. Einnig hafa tilkynningar borist af grjóthruni í Þorbirni við Grindavík, úr Keili, við Djúpavatnsleið og við Kleifarvatn.

Jarðskjálftarnir í morgun hafa verið milli Kleifarvatns og Grindavíkurvegar. Mikil virkni hefur verið á því svæði frá því í janúarlok 2020 en aftur á móti hafa engir skjálftar fundist milli Kleifarvatns og Bláfjalla á þessu ári. Þar hafa í sögunni orðið skjálftar af stærð allt að M6,5. Hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni segir það geta verið vísbendingu um að það svæði sé læst og losni ekki um spennu þar nema í stærri skjálfta.

Talin er hætta á áframhaldandi skjálftavirkni og að skjálftarnir gætu jafnvel orðið stærri. Lítill sem enginn snjór er í fjöllum vestan til á Reykjanesskaga en svolítill snjór er í fjöllum austan og norðan við höfuðborgarsvæðið. Sá snjór er víða orðinn að harðfenni, en ofarlega í fjöllum er dálítið nýsnævi ofan á harðfenninu sem gæti verið óstöðugra.

Ef skjálftavirknin heldur áfram er talin meiri hætta á grjóthruni en öðrum ofanflóðum. Ef skjálftavirkni færist austar stækkar áhrifasvæðið og nær þá u.þ.b. yfir Reykjanesskaga, norður í Hvalfjarðarsveit, umhverfis Þingvallavatn og austur að Þjórsá. Á því svæði eru mörg fjöll sem nýtt eru til útivistar, m.a. Esjan, Hengill, Ingólfsfjall, Vífilsfell, Helgafell og Keilir. Fólki er bent á að fara varlega í bröttum hlíðum og forðast svæði þar sem grjót eða snjór getur hrunið, að því er segir í viðvörun á vef Veðurstofu Íslands.

Hættustig almannavarna er í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og í Árnessýslu vegna jarðskjálftahrinunnar.

Ef skjálftavirkni færist austar með stærri skjálfta stækkar áhrifasvæðið og nær þá u.þ.b. yfir Reykjanesskaga, norður í Hvalfjarðarsveit, umhverfis Þingvallavatn og austur að Þjórsá. Á því svæði eru mörg fjöll sem nýtt eru til útivistar, m.a. Esjan, Hengill, Ingólfsfjall, Vífilsfell, Helgafell og Keilir. Fólki er bent á að fara varlega í bröttum hlíðum og forðast svæði þar sem grjót eða snjór getur hrunið.

Almannavarnir hvetja fólk til þess að gera sér grein fyrir hættum sem stafa af hrinum sem þessum. Auk þess eru íbúar á þekktum jarðskjálftasvæðum beðnir um að kynna sér varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta.

  • Mikilvægt að halda ró sinni.
  • Húsgögn: Festið skápa, hillur og þunga muni í gólf eða vegg. Festið létta skrautmuni.
  • Lausir munir og skrautmunir: Stillið þungum munum ekki ofarlega í hillur eða á veggi án þess að festa þá tryggilega þannig að léttari munir færist ekki úr stað við jarðskjálfta.
  • Kynditæki og ofnar: Kynnið ykkur staðsetningu og lokun á vatnsinntaki og rafmagnstöflu. Leki getur valdið miklu tjóni ef ekki er lokað strax fyrir vatnið. Sama gildir um frágang á þvottavélum og uppþvottavélum.
  • Skápahurðir: Geymið þungan borðbúnað í neðri skápum / skúffum og setjið öryggislæsingar / barnalæsingar á skápahurðir til varnar að innihald þeirra falli út úr þeim.
  • Svefnstaðir: Fyrirbyggið að skápar, málverk, brothættir og þungir munir geti fallið á svefnstaði. Varist að hafa rúm við stóra glugga og hlaðna milliveggi.
  • Rúður: Tryggið að glerbrot fari ekki yfir svefnstaði og íverustaði fólks. Látið rúm ekki standa undir gluggum ef hætta er á jarðskjálftum.
  • Útvarp og tilkynningar: Hlustið á tilkynningar og fyrirmæli sem gefin eru í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.
  • Símar: Hafa ber í huga að farsímar duga skammt ef rafmagn dettur út í lengri tíma. Þá getur verið gott að eiga hleðslutæki til að hafa í bifreið eða hleðslubanka til að hlaða farsíma. Sendu SMS til þinna nánustu í stað þess að hringja (sérstaklega eftir stóran jarðskjálfta) til að minnka álag á símkerfi í hamförum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert